Sjónvarp Víkurfrétta hefur göngu sína
Sjónvarp Víkurfrétta hóf göngu sína í gærkvöldi. Um er að ræða fréttatengdan mannlífsþátt frá Suðurnesjum sem sýndur er á sjónvarpsstöðinni ÍNN. Sjónvarp Víkurfrétta mun á næstu vikum fara víða í efnisöflun og lætur sér fátt óviðkomandi í fréttum, mannlífi og menningu á Suðurnesjum.
Fjögur innslög frá Suðurnesjum eru í fyrsta þætti Sjónvarps Víkurfrétta.
Flugþjónustudeild Keflavíkurflugvallar hefur meðal annars það hlutverk að halda flugbrautum Keflavíkurflugvallar hreinum og í því ástandi að þar sé öruggt að lenda flugvélum og taka á loft. Víkurfréttir stóðu vaktina á Keflavíkurflugvelli á dögunum þegar allt ætlaði að fenna í kaf.
Guðmundur Rúnar Lúðvíksson er sannkallaður fjöllistamaður. Hann er kunnur fyrir tónlist sína en hann er einnig lunkinn með pensilinn. Þá er hann með stórar hugmyndir um listaverk á Suðurnesjum. Ein þeirra er um norðurljósaturna í Reykjanesbæ. Við kíkjum á vinnustofuna til Guðmundar á Ásbrú í þættinum.
Tónlistarskóli Reykjanesbæjar var fyrir löngu búinn að sprengja utan af sér gamalt og óhentugt húsnæði á tveimur stöðum í Reykjanesbæ. Nú hefur verið innréttað glæsilegt húsnæði fyrir skólann í Hljómahöllinni. Við tókum hús á tónlistarskólastjóranum Haraldi Árna Haraldssyni og ræðum við hann í þættinum.
Mörghundruð nemendur í 9. og 10. bekk grunnskóla á Suðurnesjum kynntu sér fjölbreytt störf sem unnin eru á Suðurnesjum. Flestir nemendur spurðu um laun og vinnutíma. Víkurfréttir voru á staðnum og tóku púlsinn á hressum grunnskólanemum í atvinnuhugleiðingum.
https://www.youtube.com/watch?v=VxAm2Cyq-Mc&feature=youtu.be
https://www.youtube.com/watch?v=DkEj6hfCZ-M&feature=youtu.be