Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sjómenn í hafvillu: Sáu víkingasverðið á Fitjum en voru strand í Garði
Sunnudagur 4. janúar 2009 kl. 22:44

Sjómenn í hafvillu: Sáu víkingasverðið á Fitjum en voru strand í Garði



Þeir höfðu svo sannarlega tapað áttum sjómennirnir á Monicu, tíu tonna trillu, sem strandaði nú í kvöld. Neyðarlínunni bárust boð um að trillan hefði strandað á Fitjum í Reykjanesbæ, enda horfðu skipverjar á víkingasverðið frá strandstaðnum. Fjölmennt lið björgunarmanna var sent á vettvang, auk björgunarbáta, bæði frá Reykjanesbæ og Sandgerði.

Enginn fannst báturinn stand á Fitjum þrátt fyrir mikla eftirgrennslan og þá staðreynd að áhöfnin á hinum strandaða bát væri að horfa á víkinasverðið á Fitjum, sem er í hringtorgi upp af víkingaheimum.

Nú var þess óskað að áhöfnin á hinum strandaða bát myndi skjóta upp neyðarsól eða kveikja á handblysi til að leiðbeina björgunarmönnum, enda þoka á svæðinu en stillt veður. Til þess kom þó ekki, því á sömu stund sigldu björgunarhraðbátar úr Sandgerði fram á hinn strandaða bát og það uppi í fjöru fyrir neðan björgunarstöðina við Gauksstaði í Garði. Báturinn var sem sagt strandaður í Gauksstaðavörinni og víkingasverðið sem menn töldu sig sjá var fallega skreytt fjarskiptamastur á björgunarstöðinni í Garði.

Björgunarbátar náðu fljótlega að draga Monicu á flot að nýju og var henni komið að bryggju í Garði þar sem kafari kannaði ástand bátsins.

Áhöfnina sakaði ekki en áttavillan var greinilega alger, því talsverð vegalengd er á milli Fitja í Njarðvík og hafnarinnar í Garði.

Lögreglan á Suðurnesjum mun fara með rannsókn atviksins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024



Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson