Sjö umferðaróhöpp á skömmum tíma og mikið annríki
Mikið annríki var hjá lögreglunni á Suðurnesjum nú síðdegi. Sjö umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á stuttum tíma og þurfti m.a. að loka Reykjanesbrautinni um tíma. Þrír aðilar voru fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til skoðunar en meiðsl þeirra reyndust minni háttar. Hjá Brunavörnum Suðurnesja fengust þær upplýsingar að um tíma hafi allir sjúkrabílar BS verið samtímis í verkefnum og þar væri mikið annríki. Meðfylgjandi mynd er frá einu slysanna á Reykjanesbraut. Það varð á mótum Reykjanesbrautar og Seylubrautar á sjötta tímanum í dag.