Sjö óku á nagladekkjum
Lögreglan á Suðurnesjum hafði í vikunni afskipti af sjö ökumönnum, sem enn óku á negldum dekkjum þótt komið sé fram í júní. Sekt við slíku broti nemur 5000 krónum á hvert dekk.
Þá voru átta ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæminu. Tveir sem hraðast óku mældust báðir á 125 kílómetra hraða á Reykjanesbrautinni, þar sem hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund. Sjö ökumenn til viðbótar virtu ekki stöðvunarskyldu og einn ók án öryggisbeltis.