Sjö norrænir ráðherrar funda í Reykjanesbæ
Norræna ráðherranefndin um atvinnu-, orku- og byggðamál (MR-NER) fundar í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ miðvikudaginn 12. nóvember n.k. Í tengslum við fundinn verður haldin tveggja daga ráðstefna þar sem fjallað verður um nýsköpun í lífhagkerfinu og byggðamál.
Á fundinum verður m.a. fjallað um orkumál og stýrir Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, þeim hluta fundarins. Meðal þess sem verður til umræðu er norræni raforkumarkaðurnn, orkuskipti í samgöngum og á skipum og ný stefna Evrópusambandsins í orku- og loftslagsmálum.
Málefni nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi verða veigamikil í umræðunni sem og einföldun regluverks, ferðaþjónusta og þróun norræns samstarfs til að auka útflutning. Eins verða atvinnumál rædd á fundinum.
Norrænu ráðherrarnir sem sækja ráðherrafundinn eru: Ísland: Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Danmörk: Rasmus Helveg Petersen orkumálaráðherra
Noregur: Tord Lien olíu- og orkumálaráðherra og Jan Tore Sanner byggðamálaráðherra.
Svíþjóð: Ibrahim Baylan orkumálaráðherra og Sven-Erik Bucht byggðamálaráðherra.