Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sjö milljarða framkvæmdum við flugbrautir lokið
Fimmtudagur 28. september 2017 kl. 13:00

Sjö milljarða framkvæmdum við flugbrautir lokið

Umfangsmiklum framkvæmdum við malbikun flugbrauta á Keflavíkurflugvelli er lokið. Austur-vestur flugbraut Keflavíkurflugvallar var formlega opnuð fyrir umferð síðdegis í gær, miðvikudag.
Framkvæmdir hófust í fyrrasumar en báðar flugbrautirnar voru malbikaðar, nýjar flýtireinar lagðar sem munu gera það að verkum að brautirnar nýtast enn betur, öllum raflögnum og flugbrautarljósum var skipt út fyrir díóðuljós sem nota mun minni orku. Sumarið 2016 var hafist handa við norður-suður flugbrautina og nú er vinnu við austur-vestur brautina jafnframt lokið.
Mikið er vandað til verka við malbikunarframkvæmdir á flugvöllum til þess að yfirborðið endist sem best. Ráðast þarf í svona framkvæmd á um 15 til 20 ára fresti. Kostnaður við framkvæmdina er um sjö milljarðar króna en malbikunarhluti framkvæmdarinnar jafnast á við allar malbikunarframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu á einu ári.

Malbikunarstöð var reist innan flugvallarsvæðisins og um er að ræða um það bil 100.000 rúmmetra af efni. Hvor flugbraut um sig er um 60 metra breið og 3.000 metra löng. Til að setja það í samhengi dygði malbikið sem notað er í heildarframkvæmdina til að malbika um 90 km langan tveggja akreina þjóðveg. Hvað rafmagnshluta framkvæmdarinnar varðar er um að ræða um það bil 3.700 ljós og 150 kílómetra af rafmagnsköplum. Settur var upp öflugur stjórnbúnaður í flugturni fyrir allt flugbrautaljósakerfið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Auk framkvæmda við flugbrautir fór fram endurnýjun á öllu rafmagnsdreifikerfi til notenda á flugvellinum og öllum blindaðflugsbúnaði við flugbrautir.

ÍAV var aðalverktaki við framkvæmdina. Fjöldi annarra fyrirtækja tók þátt sem undirverktakar; Hlaðbær Colas sá um malbiksvinnuna en einnig komu að verkinu breskir og norskir verktakar. Verkfræðistofan Efla var með eftirlit með framkvæmdinni. Um 100 starfsmenn unnu beint í þessu verki frá 12 til 15 fyrirtækjum.