Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sjö metra hátt víkingasverð reist í Innri-Njarðvík
Fimmtudagur 29. september 2005 kl. 16:19

Sjö metra hátt víkingasverð reist í Innri-Njarðvík

Stórt og mikið listaverk hefur verið reist upp á hringtorgi sem verið er að útbúa í Innri Njarðvík.

Um er að ræða 7 metra háa eftirlíkingu af Kaldárhöfðasverðinu sem fannst við Úlfljótsvatn árið 1946 og er talið vera frá fyrri hluta 10. aldar. Sverðið, sem er 10 tonn á þyngd, gerði listamaðurinn og Keflvíkingurinn Stefán Geir Karlsson sem hefur áður vakið athygli með risaverkum sínum. Má þar á meðal nefna Blokkflautu og Dómaraflautu sem hann gerði á árunum 1994 og 1995.

Enn eitt verk hans er Stærsta olíutrekt í heimi sem er staðsett við verslun Olís í Njarðvík og ættu flestir Suðurnesjamenn að kannast við það verk.

Stefán gerði sverðið sem stendur nú í miðju hringtorgsins úr granít og vegur það um 10 tonn. Smíðin fór fram í Kína fyrr á árinu og tók furðu skamman tíma, eða einungis um tvo mánuði í heildina. Stefán notaðist við bæði stórtækar vélar sem og hamar og meitil og er óhætt að segja að vel hafi tekist til.

Kostnaðurinn við verkið er greiddur af einkaaðilum og leggja bæjaryfirvöld Reykjanesbæjar því ekki neitt fjármagn í kaupin og sagðist Árni Sigfússon, bæjarstjóri, vera afar ánægður með að sverðinu hafi verið fundinn staður í bænum. „Sverðið verður afar áberandi þar sem það er staðsett á lífæðinni svokölluðu. Það verður líka helsta kennileitið fyrir Víkingabyggðina sem mun rísa á svæðinu. Enn á eftir að ganga frá nánasta umhverfi við sverðið, en við stefnum á því að vígja það opinberlega þann 7. október og verður menntamálaráðherra viðstödd athöfnina.“

VF-myndir/Þorgils: Listamaðurinn við verkið

Hér má nálgast frekari upplýsingar um Stefán Geir og fleiri verk hans

Hér má nálgast frekari upplýsingar um upprunalega sverðið

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024