Sjö mánaða fangelsi og 42 milljónir í sekt fyrir skattalagabrot
Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt tæplega fertugan karlmann úr Vogum vegna meiriháttar skattalagabrota. Brotin voru framin árin 2006 og 2007 en maðurinn og þáverandi eiginkona hans ráku verktakafyriræki.
Sakborningi er gert að sæta sjö mánaða fangelsi skilorðsbundið til þriggja ára auk þess að greiða 42 milljónir króna í sekt eða sæta sex mánaða fangelsi verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms.
Brot ákærða lúta einkum að því að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum og skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda. Einnig fyrir meiriháttar brot gegn skatta- og bókhaldslögum s.s. með því að hafa skilað röngu skattframtali.
Í dómsorði kemur fram að sakborningur hafi eigi staðið skil á virðisaukaskatti upp á 8,5 milljónir króna og staðgreiðslu opinberra gjalda upp á rúmar 7,8 milljónir króna. Þá mun
vangreiddur tekjuskattur og útsvar hafa numið tveimur milljónum króna.