Sjö mánaða fangelsi fyrir að keyra framan á bíl á Sandgerðisvegi
Maður á þrítugsaldri var dæmdur í sjö mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness en hann ók próflaus stolnum bíl, var á flótta undan lögreglunni og lenti í árekstri við annan bíl sem kom úr gagnstæðri átt. Í bílnum voru tvær konur og slasaðist konan farþegameginn alvarlega og var allt síðasta ár á sjúkrahúsi frá því slysið varð, í janúar 2020. Maðurinn játaði sök og samþykkti bótakröfur að upphæð 4 milljónir króna. ruv.is greinir frá.
Ökumaðurinn sem varð valdur að árekstrinum var undir áhrifum fíkniefna. Hann var handtekinn á staðnum og úrskurðaður í síbrotagæslu.
Umræða varð um eftirför lögreglunnar og nefnd um eftirlit með lögreglu skoðaði málið. Hún komst að þeirri niðurstöðu að aðhafast ekkert í málinu. Ökumaðurinn sem varð valdur að slysinu ók á ofsahraða og lögreglan ákvað að draga úr hraða lögreglubílsins sem veitti honum eftirför.
Konan í farþegasætinu slasaðist mjög alvarlega og á Facebooksíðunni „Við erum hér líka“ - Huldufólkssögur úr nútímanum er átakanleg frásögn þar sem konan lýsir slysinu og afleiðingum þess. Hér er stuttur kafli úr frásögninni:
„17. janúar hafði verið farið fram á síbrotagæslu yfir ungum manni sem lögreglan taldi hættulegan sjálfum sér og öðrum, en því var hafnað. Daginn eftir stal hann bíl í Hafnarfirði og keyrði hann á ofsahraða eftir Reykjanesbrautinni, próflaus og dópaður. Löggan á eftir. Gegnum Keflavík og út á Sandgerðisveg á 150 kílómetra hraða, rásandi á veginum, við það að fara út af hægra megin en svo yfir á vegarkantinn hinum megin þar til að hann skall framan á bílnum sem Elínborg Björnsdóttir sat í farþegasætinu, skall vinstra megin framan á, beint framan á þar sem Ella sat. Ökumaðurinn slapp svo til ómeiddur.“
Ökumaðurinn sem var valdur að árekstrinum ók hvítum Subaru sem sjá má utan vegar á myndinni.