Sjö handteknir vegna fíkniefna
M.a. fundust sveppir, kannabis og meint amfetamín.
Lögreglan á Suðurnesjum handtók, við fíkniefnaeftirlit um helgina, sjö einstaklinga. Í einu tilvikinu reyndi rúmlega þrítugur karlmaður að kasta frá sér tveimur kannabispokum þegar lögregla hafði afskipti af honum. Manninum varð ekki kápan úr því klæðinu því lögreglumaður náði að grípa í höndina á honum áður en hann gat losað sig við efnin. Við húsleit heima hjá honum fundust tveir pokar með sveppum, einn með kannabis og lítil krukka með hvítu efni.
Í öðru atvikanna voru fimm einstaklingar handteknir í íbúð þar sem fíkniefni var að finna. Um var að ræða sjö pakkningar af meintu amfetamíni og tvær vogir. Enginn úr hópnum vildi kannast við að eiga efnin í fyrstu og voru því allir handteknir. Svo fór þó að einn þeirra, karlmaður um þrítugt, viðurkenndi eign sína á efnunum.
Loks var ökumaður handtekinn vegna gruns um fíkniefnaakstur. Sýnatökur staðfestu það. Við öryggisleit á honum fundust tveir pokar með ætluðum fíkniefnum í jakkavasa hans.
Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.