Sjö fluttir á sjúkrahús eftir slys á Grindavíkurvegi
	Sjö einstaklingar voru fluttir á sjúkrahús í Reykjavík og Reykjanesbæ eftir harðan árekstur á Grindavíkurvegi nú eftir hádegið. Þar varð þriggja bíla árekstur á beinum kafla suður af Seltjörn.
	Allt tiltækt björgunarlið var sent bæði frá Grindavík og Reykjanesbæ. Sjö voru slasaðir. Þeir sem slösuðust mest voru fluttir á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi í Reykjavík en minna slasaðir voru fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í Reykjanesbæ. Sjúkrabílar frá Grindavík og Reykjanesbæ önnuðust flutninga og þá flutti lögreglan tvo á sjúkrahús sem þurfti að skoða.
	Ekki reyndist unnt að fá upplýsingar um alvarleika áverka. Ástæður árekstursins liggja ekki fyrir aðrar en að ein bifreið fór yfir á öfugan vegarhelming.
	Grindavíkurvegi var lokað í kjölfar slyssins og umferð vísað aðrar leiðir. Þeir sem þurftu að komast til Grindavíkur urðu að fara í gegnum Hafnir og Reykjanes.
	Olía lak niður á veginn og sáu slökkviliðsmenn úr Grindavík um að hreinsa vettvang.
	Myndirnar voru teknar á vettvangi eftir að allir slasaðir höfðu verið fluttir á brott.
	
	
				
	
				


 
	
				


 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				