Sjö átaksverkefni í farvatninu
Sandgerðisbær hefur sótt um sjö átaksverkefni til Atvinnuleysistryggingasjóðs, sem þegar hefur samþykkt þrjú þeirra. Heildarkostnaður vegna þessara verkefna er áætlaður um 30 milljónir og er hlutur bæjarfélagsins þriðjungur af þeirri upphæð.
Í mars síðastliðnum beindi bæjarstjórn því til íbúa bæjarfélagsins að koma ábendingum og hugmyndum um hugsanleg atvinnuskapandi átaksverkefni til bæjarskrifstofunnar. Viðbrögð við því voru afar góð og eru sjö slík verkefni nú í farvatninu. Um 170 manns eru nú atvinnulausir í bæjarfélaginu.
„Með þessum verkefnum erum við að vonast til að að geta tekið um þriðjung þessa hóps í atvinnu í sumar. Þetta er stórátak fyrir bæjarfélagið en sjálfsagður hlutur til að reyna berjast gegn þessu atvinnuleysi sem er hrikalegt,“ segir Sigurður Valur Ásbjarnarson, bæjarstjóri í Sandgerði.
Stærstu verkefnin snúa að umhverfismálum. Í fyrsta lagi verður ráðist hreinsun strandlengjunnar frá Garðskaga yfir í Ósabotna. Í öðru lagi hreinsun á Miðnesheiðinni.
Önnur verkefni snúa að iðnaðarmönnum. „Við erum með verkefni í farvatninu þar sem við þurfum á iðnaðarmönnum að halda en óskum eftir því að þeir taki með sér fólk af atvinnuleysiskrá. Sá þáttur er dálítið óviss ennþá en við erum að vinna í því,“ sagði Sigurður Valur.