Sjávarútvegsráðherra: Þjóðarbúið verður af 700 milljónum króna
„Það er alveg ljóst að verksmiðjan er úr leik hvað þessa vertíð varðar og þetta er mjög slæmt því við erum með nægan kvóta. Þetta getur þýtt að verðum af 60 þúsund tonnum af loðnu sem getur þýtt að þjóðarbúið verður af 700 milljónum króna,“ sagði Árni Mathiesen sjávarútvegsráðherra í samtali við Víkurfréttir um hádegisbil þar sem hann skoðaði aðstæður á brunastað við Fiskimjölsverksmiðju Samherja í Grindavík sem brann í gær.
Sjávarútvegsráðherra sagði að tjónið hefði hinsvegar getað orðið meira því í ljós sé komið að ekki séu öll tæki verkskmiðjunnar ónýt og að vonandi sé það þess virði að verskmiðjan verði byggð upp aftur.
„Staðsetning verksmiðjunnar er auðvitað gríðarlega góð gagnvart seinni hluta loðnuvertíðarinnar sem jafnframt er verðmætasti hluti vertíðarinnar. Höfnin hér er einnig mjög góð þannig að maður vonast til þess að þetta verði byggt upp aftur.“
Sjávarútvegsráðherra og Guðjón Hjörleifsson formaður sjávarútvegsnefndar alþingis funduðu með bæjarstjóra og fulltrúum fiskimjölsverksmiðjunnar í Grindavík í hádeginu.
Sjávarútvegsráðherra sagði að all verði gert til að minnka þau neikvæðu áhrif sem af brunanum hljótast. „En það verða örugglega einhver áhrif sem fólk mun finna fyrir, því er nú ver og miður.“
Myndir: Sjávarútvegsráðherra á brunastað í Grindavík um hádegisbilið í dag. Eins og sést á neðri myndinni eru skemmdirnar mjög miklar í verksmiðjunni. VF-ljósmyndir/Jóhannes Kr. Kristjánsson.