Sjálfvirkum skilaboðum um heilbrigðisþjónustu rignir yfir Reykjanesbæ
Skilaboð á ensku um heilbrigðisþjónustu hafa í dag borist fjölmörgum íbúum Reykjanesbæjar. Dæmi eru um að sömu skilaboðin hafi borist oftar en einu sinni. Ekki hafa fengist skýringar á því hvers vegna íbúar í Reykjanesbæ fá þessi boð, aðrar en þær að frá og með deginum í dag fá allir komufarþegar á Keflavíkurflugvelli sjálfvirk SMS skilaboð á ensku með upplýsingum um hvert þeir skuli leita þurfi þeir á heilbrigðisþjónustu að halda. Markmiðið er að tryggja þeim greiðan aðgang að upplýsingum hvað þetta varðar og beina þeim á rétta staði í samræmi við þörf og aðstæður hverju sinni. Gert er ráð fyrir að þetta muni dreifa álagi og að einhverju leyti létta á bráðamóttökum sjúkrahúsanna.
Verkefnið er samstarfsverkefni Neyðarlínunnar, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra og landlæknisembættisins sem ráðist var í að frumkvæði viðbragðsteymis um bráðaþjónustu í landinu sem stofnað var 10. júní síðastliðinn. Þetta er gert til að tryggja ferðamönnum einfaldar upplýsingar um hvert þeir geti leitað eftir heilbrigðisþjónustu ef hennar er þörf. Töluvert hefur verið um komur ferðamanna á bráðamóttökur Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri vegna einfaldra heilsufarsvandamála sem betur mætti sinna annars staðar, s.s. á heilsugæslustöð eða læknavaktinni. Þá hefur einnig nokkuð borið á því að ferðamenn leiti á heilsugæslustöðvar utan opnunartíma þeirra vegna skorts á upplýsingum.
Í sjálfvirkum skilaboðum til ferðamanna koma fram upplýsingar um símanúmerið 1700 þar sem veittar eru upplýsingar um heilbrigðisþjónustu og símanúmerið 112 ef um neyðartilvik er að ræða. jafnframt er vísað á gagnvirkt þjónustukort með upplýsingum um staðsetningu heilbrigðisstofnana, heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa um allt land og opnunartíma þeirra. Fram kemur í skilaboðunum að hægt sé að hringja í síma 1700 úr símum með íslenskum SIM kortum en ef um erlend farsímanúmer er að ræða þarf að hringja í +354 544 4113.
Skilaboðin eru svohljóðandi:
From Icelandic health care authorites: 1700 is the national telephone number for advice and information about healthcare in Iceland. 1700 is open to receive calls 24 hours a day. If you are calling from an Icelandic phone you can call 1700, otherwise call +354 544 4113. The web address is https://www.heilsuvera.is/en/map/. In an emergency, call 112.