Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

 Sjálfstætt starfandi kattaveiðari fær 8.000 krónur á kött
Mánudagur 28. mars 2011 kl. 09:49

Sjálfstætt starfandi kattaveiðari fær 8.000 krónur á kött

Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja [HES] hefur ekki mannskap til að sinna kattaveiðum á Suðurnesjum. Þess í stað hefur stofnunin ráðið sjálfstætt starfandi meindýraeyði í Keflavík til að veiða kettina en útvegað honum allan búnað.


Fyrir kattaveiðar greiðir Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja ca. 8000 krónur á kött. Innifalið í því er að egna upp búrið og vakta það en það krefst a.m.k. tveggja ferða á vettvang.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Ef köttur kemur í búrið er farið með hann á Dýrasetrið í Keflavík og hann skannaður eftir örmerki. Ef kötturinn er löglega skráður, sem er mjög sjaldgæft, er hann keyrður aftur á þann stað þar sem hann kom í búrið og sleppt. Yfirgnæfandi líkur er á að hann muni forðast búrið eftir það.


Ef kötturinn er hinsvegar óskráður er hann geymdur í kattarhóteli í 7 daga. Þetta er samkvæmt dýraverndarlögum. Kostnaðurinn er kr. 1900 á dag eða samt. kr. 13.300. Ef kattarins er ekki vitjað af eiganda er honum lógað á Dýralæknastofu Suðurnesja, segir Magnús H. Guðjónsson hjá HES við fyrirspurn bæjarstjóra Garðs, sem kynnt var í bæjarráði fyrir helgi.


HES hefur ekki fengið margar kvartanir úr Garðinum út af lausum hundum upp á síðkastið. HES hvetur fólk til að láta vita, sérstaklega ef það veit hver eigandinn er. Hundaeftirlitsmaður keyrir reglulega um svæðið til að leita að lausum hundum. Ef hundar eru að valda nágrönnum ónæði með gelti þá reyna starfsmenn HES að ræða við eigendur. „Ef slíkt ónæði er eftir kl. 11 á kvöldin er það að mínu mati lögreglumál,“ segir Magnús H. Guðjónsson í svari til bæjarstjórans í Garði sem kynnt var í bæjarráði þar sem svarað var fyrirspyrn L-lista varðandi lausagöngu hunda og katta í Garði.


Mynd: Kattaveiðari fær 8000 krónur á kött - kötturinn fær ekkert fyrir músaveiðar. VF-mynd: Hilmar Bragi