Sjálfstæðismenn vilja meiri áherslu á atvinnumál
Af hverju eru milljarðar til Isavia ekki notaðir til að halda fólki í vinnu ? spyr oddviti Framsóknarflokks
Sjálfstæðismenn í Bæjarstjórn Reykjanesbæjar telja mikilvægt að atvinnumál verði í forgrunni og vilja m.a. endurvekja starfshóp um atvinnuþróun og að Framtíðarnefnd fjalli upp atvinnuuppbyggingu í bæjarfélaginu.
Bókunin hljóðar svona: „Bæjarfulltrúar og nefndarmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt mikla áherslu á að atvinnumál verði í forgrunni og að mikilvægt sé að vinna að eflingu fjölbreyttra atvinnutækifæra í Reykjanesbæ. Við leggjum því formlega fram eftirfarandi tillögu:
Menningar- og atvinnuráð setji atvinnumál næstu mánuði í forgrunn, vinni að sviðsmyndagreiningum og horfi til möguleika í atvinnumálum til lengri og skemmri tíma.
Framtíðarnefnd fjalli um atvinnuuppbyggingu í Reykjanesbæ sem átti að vera hennar hlutverk samkvæmt málefnasamning meirihlutans en hefur ekki komist á dagskrá.
Endurvekja starfshóp um atvinnuþróun sem þarf að koma með tillögur um skammtíma lausnir vegna aukins atvinnuleysis í Covid og eins möguleika í menntamálum og þannig auka virkni þeirra og efla þá sem misst hafa vinnuna.
Allt starfsfólk Reykjanesbæjar sem mögulega getur stutt vinnu til atvinnuuppbyggingar fái til þess svigrúm.
Settur verði upp starfsdagur sem fyrst þar sem fulltrúar bæjarráðs, menningar- og atvinnuráðs, framtíðarnefndar, Reykjaneshafnar, starfshóps um atvinnuþróun og Samtaka atvinnurekenda á Reykjanesi koma saman og samræma viðbrögð og ákveða sviðsmyndir.
Sameina þarf krafta Reykjanesbæjar, atvinnurekenda á svæðinu og ríkisvaldsins. Tillögur Reykjanesbæjar þurfa að vera skýrar.“
Margrét A. Sanders, Baldur Þ. Guðmundsson og Anna Sigríður Jóhannesdóttir.
Til máls tóku Jóhann Friðrik Friðriksson, Friðjón Einarsson, Margrét A. Sanders, Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Baldur Þ. Guðmundsson, Margrét Þórarinsdóttir og Guðbrandur Einarsson.
„Við höfum talað við öll ráðuneyti, ráðherra og þingmenn síðustu 5 ár og kynnt nákvæmar aðgerðir fyrir Suðurnesin. Það er því ekki rétt að við höfum ekki gert neitt,“ sagði Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs m.a. í ræðu sinni.
„Væri ríkisfjármagninu til Isavia ekki betur varið í að búa til verkefni fyrir þetta fólk sem hefur fengið uppsögn að undanförnu. Hver er tilgangurinn með því að segja þessu fólki upp? Hefði ekki verið nær að styðja við þetta fólk í vinnu eða með verkefnum á meðan verið er að þreyja þorrann. Það er miklu dýrara að fólki verði atvinnulaust en að tryggja virkni þess fólks svo ekki þurfi að koma til uppsagna,“ sagði Jóhann Friðrik Friðriksson, oddviti Framsóknarflokks m.a. í framhaldi af bókun Sjálfstæðismanna.
Samþykkt með öllum atkvæðum að vísa tillögu bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins til frekari umræðu í bæjarráði. Einnig samþykkt 11-0 að vísa fjórða máli fundargerðarinnar, -Aðgangseyrir á söfn- til bæjarráðs.