Sjálfstæðismenn með prófkjör í Reykjanesbæ - miklar breytingar hjá öllum flokkum
Sjálfstæðismenn samþykktu á fundi kjördæmisráðs flokksins í Reykjanesbæ að viðhafa prófkjör fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor. Einungis tveir af sjö bæjarfulltrúum flokksins gefa kost á sér til áframhaldandi starfs, bæjarstjórinn Árni Sigfússon og Böðvar Jónsson, formaður bæjarráðs og annar maður á lista flokksins fyrir síðustu kosningar.
Bæjarfulltrúarnir fimm sem hafa ákveðið að draga sig í hlé eru þau Björk Guðjónsdóttir, núverandi forseti bæjarstjórnar, Steinþór Jónsson, Garðar Ketill Vilhjálmsson, Sigríður Jóhannesdóttir og Þorsteinn Erlingsson. Prófkjörið verður haldið síðla febrúar mánaðar en ekki er búið að ákveða endanlega dagsetningu.
Ekki hefur mikið heyrst úr herbúðum Samfylkingarmanna og Framsóknar en fyrir síðustu kosningar buðu flokkarnir saman undir merkjum A-listans. Þó hefur verið ákveðið að gera það ekki aftur. Oddviti framsóknarmanna, Eysteinn Jónsson er fluttur úr bæjarfélaginu og heyrst hefur að Guðný Kristjánsdóttir sem verið hefur varabæjarfulltrúi hafi verið nefnd sem hugsanlegt oddvitaefni.
Hjá Samfylkingu hefur nafn Friðjóns Einarssonar heyrst til að stýra flokknum í komandi sveitarstjórnarkosningum. Hann mun vera að hugsa málið. Flestir af efstu bæjarfulltrúunum munu ekki ætla að gefa kost á sér áfram. Þó hefur Guðbrandur Einarsson oddviti A-listans frá því í síðustu kosningum ekkert gefið upp í þessum efnum en vitað er að bæði Ólafur Thordersen og Sveindís Valdimarsdóttir munu ekki ætla áfram.
Það er því nægt pláss í öllum flokkum fyrir komandi kosningar.
Mynd: Frá bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ á þessu kjörtímabili.