Sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ ekki ánægðir með breytingar á listanum
Einn fulltrúi úr stærsta byggðarlaginu í Suðurkjördæmi á 20 manna lista og er í 7. sæti
„Ég er ekki sáttur við þessa niðurstöðu og við fulltrúar úr Reykjanesbæ vildum að úrslit prófkjörsins fengju að standa. Við mættum með breytingartillögu en hún fékk heldur ekki hljómgrunn svo við drógum hana til baka. Niðurstaðan var ekki nógu góð fyrir okkur, við missum ráðherra og fáum svo bara einn fulltrúa úr Reykanesbæ á tuttugu manna lista,“ sagði Guðbergur I. Reynisson, formaður sjálfstæðisfélags Reykjanesbæjar en fulltrúaráð flokksins í Suðurkjördæmi lagði fram breytingar á listanum sem voru samþykktar á fundi á Selfossi í gær.
Vitað er að formaðurinn og fleiri vildu að Ísak Kristinsson færðist upp í 5. sæti en hann endaði í 6. sæti í prófkjörinu. Niðurstaðan var sú að hann fékk 7. sætið. Bryndís Einarsdóttir sem endaði í 8. sæti í prófkjörinu fékk ekki sæti á listanum og heldur ekki þeir Kristján Óli Sigmundsson, Árni Johnsen og Oddgeir Á. Ottesen. Guðbergur sagðist einnig hissa á því að Ragnheiði Elínu Árnadóttur hafi ekki verið boðið heiðurssæti á listanum.
Listinn í heild sinni er eftirfarandi:
1. sæti - Páll Magnússon fjölmiðlamaður
2. sæti - Ásmundur Friðriksson alþingismaður
3. sæti - Vilhjálmur Árnason alþingismaður
4. sæti - Unnur Brá Konráðsdóttir alþingismaður
5. sæti - Kristín Traustadóttir endurskoðandi
6. sæti - Hólmfríður Erna Kjartansdóttir, skrifstofustörf
7. sæti - Ísak Ernir Kristinsson deildarstjóri
8. sæti - Brynjólfur Magnússon lögfræðingur
9. sæti - Lovísa Rósa Bjarnadóttir framkvæmdastjóri
10. sæti - Jarl Sigurgeirsson tónlistarkennari
11. sæti - Laufey Sif Lárusdóttir umhverfisskipulagsfræðingur
12. sæti - Jón Bjarnason bóndi
13. sæti - Hjördís Guðrún Brynjarsdóttir sjúkraþjálfari
14. sæti - Bjarki V. Guðnason sjúkraflutningamaður
15. sæti - Helga Þórey Rúnarsdóttir leikskólakennari
16. sæti - Þorkell Ingi Sigurðsson framhaldsskólanemi
17. sæti - Ragnheiður Perla Hjaltadóttir hjúkrunarnemi
18. sæti - Alda Agnes Gylfadóttir framkvæmdastjóri
19. sæti - Sandra Ísleifsdóttir húsmóðir
20. sæti - Geir Jón Þórisson, fyrrverandi lögreglumaður
Páll Magnússon, oddviti með samstarfsfólki sínu eftir breytingarnar á listanum.