Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sjálfstæðismenn fjölmenntu í opið prófkjör Samfylkingar
Föstudagur 5. mars 2010 kl. 11:54

Sjálfstæðismenn fjölmenntu í opið prófkjör Samfylkingar


Sjálfstæðismenn fjölmenntu í opið prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ um síðustu helgi að því er virðist gagngert til að koma Friðjóni Einarssyni í oddvitasætið og fella núverandi oddvita, Guðbrand Einarsson. Þetta kemur fram í samtali VF við Björk Þorsteinsdóttur, einn frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ.

Samkvæmt heimildum VF átti Björk Þorsteinsdóttir að hafa látið þau orð falla á fundi sjálfstæðisfólks að morgni prófkjörsdags, laugardaginn 27. febrúar,  að séð yrði til þess að Guðbrandur yrði felldur og Friðjón settur inn í staðinn.
Björk neitaði því í samtali við VF að hafa tekið þannig til orða þegar þessi ummæli voru borin undir hana.
„Ég sagði: Ég spái því að það verði Sjálfstæðismenn sem muni velja oddvita Samfylkingarinnar og þá væntanlega nýjan,“ sagði Björk í samtali við VF. „Þetta var bara spá af minni hálfu af því ég vissi um marga sjálfstæðismenn sem voru á leiðinni í þetta prófkjör. Mér fannst þeir sem gáfu það uppi vera meira hliðhollir honum [Friðjóni –innsk.blm]. Það er það eina sem ég hafði fyrir mér í því. Ég sjálf fór ekki prófkjörið og hvatti fólk í kringum mig til að gera það ekki,“ sagði Björk ennfremur.

Hún segir þessa umræðu á umræddum fundi hafa komið til að af því að hún hafi verið innt eftir því hvernig kosningabaráttan hefði gengið. „Ég svaraði að allt hefði gengið mjög vel nema að fólk hefði verið ósátt við að prófkjörið okkar var lokað en opið hjá Samfylkingunni. Ég varð þá spurð að því hvort mér hefði þótt betra að hafa opið prófkjör. Ég svaraði já vegna þess að ég teldi Samfylkinguna græða á því að svo margir færu úr okkar prófkjöri yfir í hitt. Ég sagðst þá spá því að það yrðu sjálfstæðismenn sem veldu nýjan oddvita Samfylkingarinnar
Ég sjálf hef talið, og er reyndar sammála Guðbrandi með það, að fólk sem er harðákveðið í að kjósa Sjálfstæðisflokkinn hafi enga ástæðu til þess að reyna hafa áhrif á Samfylkingarlistann,“ sagði Björk.

---

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Efri mynd - Úr prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ.

Neðri mynd - Björk Þorsteinsdóttir, frambjóðandi D-lista.