Sjálfstæðisflokkurinn með langmest fylgi í Suðurkjördæmi
Enginn flokkur nýtur meira fylgis í nokkru kjördæmi en Sjálfstæðisflokkurinn í Suðurkjördæmi. Hann ber höfuð og herðar yfir aðra stjórnmálaflokka þar með 42% fylgi.
Þetta kemur fram í nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup. Framsóknarflokkurinn fær næstmest fylgi, 20%, en athygli vekur að samanlagt fylgi stjórnarflokkanna nær ekki 30%. Samfylkingin nýtur stuðnings 15% kjósenda í Suðurkjördæmi en VG 14%. Aðspurð sögðust 2% styðja Hreyfinguna og 7% eitthvað annað.
„Ég er að sjálfsögðu afar ánægð með þennan árangur,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. „Ég tel að íbúar kjördæmisins skynji það að við erum tilbúin að berjast fyrir hagsmunum þeirra og höfum haldið þeim á lofti. Þetta kjördæmi, ekki síst Suðurnesin, hefur orðið illa fyrir barðinu á aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar. En skilaboðin eru skýr, ef kjósendur Suðurkjördæmis fengju að ráða væri boðað til kosninga nú þegar.“