Sjálfseignastofnun stofnuð um jarðvang á Reykjanesi
Sjálfseignarstofnun um jarðvang á Reykjanesi var stofnuð sl. þriðjudag í Bláa lóninu. Vel var mætt á fundinn og eru bundnar miklar væntingar við jarðvanginn sem á ensku hefur heitið Reykjanes Geopark.
Eggert Sólberg Jónsson verkefnisstjóri kynnti forsöguna. Fram kom í máli hans að lengi hefur verið rætt um jarðminjagarð á Suðurnesjum. Í janúar 2012 var undirrituð viljayfirlýsing sveitarfélaganna á Suðurnesjum um jarðvang á Reykjanesi og verkefnastjóri svo ráðinn í vor. Skipaður var undirbúningshópur en í honum voru fulltrúar Grindavíkurbæjar, Reykjanesbæjar, Sandgerðisbæjar, Sveitarfélagsins Garðs og Sveitarfélagsins Voga. Þá hafa komið að verkefninu fulltrúar fræða- og atvinnulífs á svæðinu, þ.e. Ferðamálasamtaka Suðurnesja, Bláa lónsins, HS Orku, Keilis - miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs auk Heklunnar - atvinnuþróunarfélags Suðurnesja. Undirbúningshópinn skipuðu:
Róbert Ragnarsson, Grindavíkurbær
Guðlaugur H. Sigurjónsson, Reykjanesbær
Sigrún Árnadóttir, Sandgerðisbær
Ásmundur Friðriksson / Magnús Stefánsson, Sveitarfélagið Garður
Ásgeir Eiríksson, Sveitarfélagið Vogar
Magea Guðmundsdóttir, Bláa lónið
Kristján Pálsson, Ferðamálasamtök Suðurnesja
Júlíus J. Jónsson, HS Orka
Hjálmar Árnason, Keilir
Björk Guðjónsdóttir, Heklan
Jarðvangur er gæðastimpill á svæði sem inniheldur merkilegar eða einstakar jarðminjar og kemur þeim á framfæri. Þar eru áhugaverð svæði vegna ýmissa hluta, s.s. rannsókna, fræðslugildis, fjölbreytilegrar náttúru, sjaldgæfra jarðminja o.s.frv. Í jarðvangi er tryggð sjálfbær ferðaþjónusta s.s. með bættu viðhorfi og þekkingu á jarðminjum og náttúru, byggja upp jarðfræðiferðamennsku. Jarðvangur byggir á þátttöku heimamanna og hefur skýra stefnu um sjálfbæra þróun.
Á undanförnum mánuðum hefur verið unnið að umsókn um aðild að Samtökum evrópskra jarðvanga (European Geoparks Network) sem er hluti sambærilegs net alþjóðlegra jarðvanga undir verndarvæng UNESCO. Úttektaraðilar koma svo hingað 2013 til að taka jarðvanginn út og svo verður kosið um umsóknina á ársfundi EGN í haut.
Umsókn um IPA styrk er á lokasprettinum. Verkefnið verður kynnt betur á næstunni.
Á fundinum var stofnskráin fyrir jarðvanginn samþykkt.
Eftirtaldir aðilar voru tilnefndir og kjörnir í stjórn:
Grindavíkurbær: Róbert Ragnarsson aðalmaður og Þorsteinn Gunnarsson til vara.
Reykjanesbær: Guðlaugur H. Sigurjónsson aðalmaður og Pétur Jóhannsson til vara.
Sandgerðisbær, Sveitarfélagið Garður og Sveitarfélagið Vogar: Magnús Stefánsson og Helga Haraldsson aðalmenn og Einar Jón Pálsson og Ásgeir Eiríksson til vara.
Aðrir aðilar sem aðild eiga að jarðvangnum: Berglind Kristinsdóttir, Júlíus J. Jónsson og Kristján Pálsson aðalmenn og Hjálmar Árnason, Magnea Guðmundsdóttir og Óskar Sævarsson til vara.