Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Sjálfboðavinna bæjarfulltrúa heyri sögunni til
Mánudagur 16. janúar 2012 kl. 14:57

Sjálfboðavinna bæjarfulltrúa heyri sögunni til

Laun bæjarfulltrúa Sveitarfélagsins Voga eru nú til meðferðar bæjaryfirvalda í Vogum en á síðasta bæjarstórnarfundi í sveitarfélaginu var til afgreiðslu fundargerð starfsfundar bæjarráðs vegna fjárhagsáætlunar Voga. Inga Sigrún Atladóttir, forseti bæjarstjórnar Voga, lagði fram eftirfarandi bókun um föst laun bæjarfulltrúa:

„Laun bæjarfulltrúa hafa undanfarin ár verið þannig að greitt er fyrir mætingu á fundi sem boðaðir eru af bæjarráði eða bæjarstjóra. Önnur störf bæjarfulltrúa hafa verið unnin í sjálfboðavinnu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Þessi störf eru m.a. undirbúningur fyrir fundi (lestur gagna, öflun annarra upplýsinga og samráðsfundir bæjarfulltrúa), kynnig á lögum, reglum, fundarsköpum og samþykktum sem bæjarfulltrúar starfa eftir. Mæting á hverskonar námskeið, fræðsluerindi og ráðstefnur til upplýsingar og kynningar fyrir bæjarfulltrúa. Fundir með bæjarstjóra, samskipti við bæjarbúa s.s. útskýringar á stefnu bæjarins og grundvelli þeirra ákvarðana sem teknar eru, mánaðarlegir viðtalstímar, svörun tölvupósta og annarra erinda sem berast bæjarfulltrúum. Ennfremur hafa bæjarfulltrúar lagt til tölvu og síma og greiða af þeim tækjum talsverðan kostnað. Auk þessa hafa bæjarfulltrúar nýtt sér sambönd sín bæjarfélaginu til framdráttar þar sem því hefur verið við komið og sótt ýmiskonar fundi í því samhengi.


Í nýjum sveitarstjórnarlögum er bæjarfulltrúum óheimilt að afsala sér launum fyrir það starf sem ætlast er til þess að þeir vinni. Þessi viðbót við lögin var m.a. sett fram til að koma til móts við vinnuálag bæjarfulltrúa og koma í veg fyrir að aðeins tekjuháir einstaklingar eða fólk með nægan frítíma geti gefið kost á sér til slíkra starfa.


Ekki er samstaða um þessa ákvörðun í bæjarstjórn og því var ákveðið að fara í mjög hófleg mánaðarlaun. Kostnaður var ákveðin þannig að 10 bæjarfulltrúa skiptu með sér árslaunum 40 ára grunnskólakenna. Með þeirri ákvörðun ná bæjarfulltrúar í Sveitarfélaginu Vogum ekki 50% af þeim launum sem ákvörðuð eru í nágrannasveitarfélögunum en vegna þeirrar ádeilu sem þessi ákvörðun hefur hlotið í sveitarfélaginu þótti okkur þetta ásættanlegur millivegur“.