Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Sjálfbær Suðurnes
Frá fundinum Sjálfbær Suðurnes í Sandgerði.
Föstudagur 26. maí 2023 kl. 06:29

Sjálfbær Suðurnes

Orkuskipti í flugi, græn orka og sameiginlegt kolefnisbókhald. | Vel heppnaður fundur hjá Suðurnesjavettvangi.

Sjálfbærni í framkvæmdum og rekstri sveitarfélaga, orkuskipti í flugi, eldsneyti framtíðarinnar og þá nýjung sem felst í sameiginlegu kolefnisbókhaldi var meðal málefna á fjölmennum fundi undir yfirskriftinni Sjálfbær Suðurnes sem haldinn var af Suðurnesjavettvanginum miðvikudaginn 3. maí 2023. Suðurnesjavettvangurinn er samstarf sveitarfélaganna fjögurra á Suðurnesjum – þ.e. Grindavíkur, Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar og Voga, Isavia, Kadeco og Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Ísland kolefnislaust 2040

Meðal gesta á fundinum voru Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku og loftslagsráðherra, sem flutti erindi um leiðina að árangri í loftslagsmálum. Þar fór hann m.a. yfir þau markmið að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040 og óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja. Hann fór yfir áskoranirnar á veginum og hvernig væri verið að færa okkur nær þessum markmiðum með kortlagningu möguleikanna og aukinni samvinnu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eggert Benedikt Guðmundsson, leiðtogi á sviði sjálfbærrar þróunar í forsætisráðuneytinu, fór síðan yfir verkefnið um sjálfbært Ísland. Hann ræddi stefnumótunarferlið í því verkefni og kynningarfundi forsætisráðherra um það sem hefðu verið haldnir víða um land nýverið. Búið væri að vinna Grænbók um stöðuna og næsta skref Hvítbók um verkefnið til framtíðar. Niðurstaðan verður þingsályktunartillaga ráðherra til Alþingis sem verði að stefnu Íslands um sjálfbæra þróun.

Sjálfbærni hjá Isavia

Hrönn Ingólfsdóttir, forstöðumaður stefnumótunar og sjálfbærni hjá Isavia, og Stefán Kári Sveinbjörnsson, verkefnastjóri hjá Isavia, fóru síðan yfir sjálfbærnivegferð félagsins. Þar var rætt um leiðina að kolefnisleysi í rekstri Isavia sem á að ná árið 2030. Farið var yfir kortlagningu á kolefnisspori Keflavíkurflugvallar sem hefur verið unnin, tæknilegar áskoranir fyrir mismunandi ný flugvélaeldsneyti vegna orkuskipta í flugi á Keflavíkurflugvelli og orkuþörf millilandaflugs sem áætlað er að verði orðin sem samsvarar 14,7-16,5 Svartsengis virkjunum árið 2050.

Auk annarra samstarfsverkefna sveitarfélaganna undir hatti sjálfbærni kynnti Berglind Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, sameiginlegt kolefnisbókhald þeirra sem hefur það markmið að reikna losun gróðurhúsalofttegunda á Suðurnesjum. Til þess var tekið í gagnið umfangsmikið mælaborð til að greina stöðuna og hringrásarhagkerfi innleitt.

Grænn iðngarður

Þá fjallaði Kjartan Eiríksson um grænan iðngarð á Suðurnesjum, þ.e. Reykjanesklasinn Iceland Eco-Business Park. Græni iðngarðurinn verður staðsettur í Helguvík, í kerskálum sem voru reistir í tengslum við álver þar. Stór nýsköpunarverkefni hafa komið sér þar fyrir, m.a. tvö stór gagnaver og líftæknifyrirtækið Algalíf. Þarna er mikil og góð aðstaða fyrir t.d. ylrækt, fiskeldi, matvælaframleiðslu, rannsóknarstarfsemi, flutningastarfsemi og fleira. Góð nálægð við Keflavíkurflugvöll og höfuðborgarsvæðið.

Í lok fundar var síðan boðið upp á samtal um málefni fundarins þar sem fundarstjóri, Theodóra Þorsteinsdóttir, verkefnastjóri hjá Isavia, og gestir á fundinum gátu spurt Guðlaug Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Guðrúnu Hafsteinsdóttur, alþingismann, og Hrönn Ingólfsdóttur, forstöðumann stefnumótunar og sjálfbærni hjá Isavia, nánar um efni fundarins. Guðrún var þar einnig sem formaður starfshóps um umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um leiðir til að hraða orkuskiptum í flugi.


Samvinna aðila á Suðurnesjum til mikillar fyrirmyndar

– segir Guðlaugur Þór Þórðarson, ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála.

Guðlaugur Þór Þórðarson, ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála segir að bjartsýni og stórhugur á Suðurnesjum sé til fyrirmyndar og komi vel fram þegar sveitarfélögin og atvinnulífið og fleiri á svæðinu séu að vinna saman. Það sé besta leiðin til að ná árangri. Ráðherra var gestur og ávarpaði ráðstefnuna Sjálfbær Suðurnes.

„Þessi fundur vekur miklar vonir. Það eru gríðarleg tækifæri og það þarf að nýta þau. Ánægjulegt að sjá að það er verið að gera það hér í góðri samvinnu margra aðila.

Hið augljósa er að við þurfum græna orku á Íslandi, við þurfum auðvitað að nýta orku sem allra best en það er óhjákvæmilegt að búa til græna orku. Við höfum farið í gegnum orkuskipti 1 og 2 og erum á leið í orkuskipti 3. Það eru mikilvæg, efnahagsleg og tilfinningaleg verðmæti í náttúrunni okkar og þetta er spennandi verkefni sem við þurfum að vinna saman. 

Flugið og ferðaþjónustan eru lang stærstu þættirinir þegar kemur að grænni orku. Við eigum alla möguleika á því að vera með grænasta millilandaflugið ef við höldum rétt á spilunum. Mín framtíðarsýn er mjög skýr. Við erum land sem verður grænast á öllum sviðum. Við berum virðingu fyrir náttúrunni en á sama tíma erum við fremst þjóða þegar kemur að loftslagsmálum Það er hægt en það gerist ekki nema við vinnum skipulega saman og þessi fundur er gott dæmi um góða samvinnu,“ sagði Guðlaugur Þór.

Hugmyndin um grænan iðngarð í Helguvík segir ráðherra vera frábært dæmi um hvernig hægt sé að nýta tækifærin. Þarna hafi átt að vera stóriðja en þegar  hugmyndir um iðngarðinn í Helguvík verða að veruleika verði þær gríðarlegur styrkur fyrir Suðurnesin og landið allt.