Sjaldséð litfögur mandarínönd í Norðurkoti
Svokölluð Mandarínönd hefur síðustu daga spígsporað innan um aðra fugla í Norðurkoti í Sandgerði. Andategund þessi hefur afar sjaldan sést hér á landi. Um er að ræða litfagran karlfugl en kvenfuglinn er brúnn að lit. Fréttavefurinn www.245.is greinir frá þessu.
Mandarínöndin verpir í trjám. Hún er frá Asíu og var flutt þaðan endur fyrir löngu til Evrópu þar sem hún var höfð til skrauts í skrúðgörðum.
Samkvæmt upplýsingum á vefnum fuglar.is, er mandarínöndin í hópi þeirra tegunda sem einungis hafa sést hér á landi um 16-50 sinnum.
Mandarínöndin hefur sést tvisvar í Norðurkoti síðan á mánudag og líkar greinilega vel í fuglaparadísinni, segir á 245.is
Mynd: Páll Þórðarson/245.is