Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sjaldgæft náttúrufyrirbrigði um alla Ásbrú
Föstudagur 5. febrúar 2010 kl. 13:00

Sjaldgæft náttúrufyrirbrigði um alla Ásbrú

Íbúar á Ásbrú klóruðu sér í höfðinu í forundran þegar þeir komu út í morgun en um víðan völl máttu sjá undarlega snjóbolta sem virtust margir hafa rúllað langar vegalengdir. Bílastæðin á svæðinu voru flestöll undirlögð af þessu fyrirbæri, sem virðist vera það sjaldgæft að það komst í heimsfréttirnar um daginn eftir að hjón í Bretlandi höfðu tilkynnt um slíka snjóbolta á akri. Vöktu myndirnar með fréttinni talsverða athygli þar í landi og rataði fréttin m.a. í fjölmiðla hér heima.

Náttúran virðist rúlla boltunum upp við sérstakar aðstæður þar sem saman fer blautur snjór og vindur. Í kjölfar fréttarinnar frá Bretlandi tilkynnti Veðurstofa Íslands að vitað væri um tilvik af þessu tagi hér á landi, síðast í febrúar á síðasta ári á Hólum í Hjaltadal. Þar runnu boltarnir undan halla þannig að vindurinn fékk smá aðstoð. Á Ásbrú hafa boltarnir hins vegar rúllast upp á jafnsléttu.

Þetta fyrirbrigði hefur ekki fengið nafn en á vef Veðurstofunnar segir að kalla megi þetta vindsnúna snjóbolta. Á vef stofnunarinnar má lesa nánar um þetta fyrirbrigði, sjá hér.

Ellert Grétarsson tók meðfylgjandi myndir á Ásbrú í morgun. Eins og sjá má á myndunum ferðast margir boltanna  talsverðar vegalengdir. Á efstu  myndinni eru stærðarhlutföllin sýnd með farsíma til hliðsjónar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024