Sívaxandi áhugi á námskeiðum og þjónustu Virkjunar
„Þetta fór rólega af stað en hefur verið stigvaxandi og nú er orðið mjög líflegt hérna á morgnana. Fjöldi þeirra sem hingað koma er alltaf að aukast,“ segir Páll Rúnar Pálsson, starfsmaður Virkjunar á Vallarheiði um viðbrögð frá því Virkjun var opnuð fyrir rétt um mánuði síðan.
Í Virkjun er m.a. boðið upp á fjölbreytt námskeið. Páll var inntur eftir því hvort mikill áhugi væri á þessum námskeiðum.
„Það er svolítið misjafnt eftir námskeiðum, sum eru vinsælli en önnur, en áhuginn á þeim fer vaxandi. Fólk að átta sig betur á því sem er í boði hér. Ég tel að fólk hafi ekki vitað nógu vel af okkur í byrjun. Ég held að starfið hér sé að verða sæmilega vel kynnt en betur má ef duga skal. Ef við tökum mið af atvinnuleysistölunum þá hefði ég gjarnan viljað sjá meiri þátttöku. Hún er kannski ekki í takt við atvinnueysistölurnar. Við erum auðvitað líka að þróa starfið og þurfum að fá viðbrögð við því,“ segir Páll.
„Núna erum við að hella okkur úti að halda utan um góðar hugmyndir og reyna að gera þær að verkefnum. Bæði verður námskeiðahald í kringum það og eins fáum við til liðs við okkur fagfólk til að halda utan um þetta. Fólk hefur oft verið lengi með hugmyndir í kollinum en aldrei farið með þær neitt lengra. Við viljum gefa fólki kost á að virkja þessar hugmyndir og vinna úr þeim. Við komum væntanlega til með að njóta stuðnings frumkvöðlaseturs Keilis í þessu,“ segir Páll Rúnar Pálsson aðspurður um það sem framundan er í Virkjun.
Ýmis námskeið og fræðsla er í boði á næstunni. Á miðvikudaginn í næstu viku verður boðið upp á námskeiðið 10 leiðir til lífshamingju. Leiðbeinandi verður séra Þórhallur Heimisson, sóknarprestur. Á námskeiðunum verður farið í gegnum tíu reyndar leiðir til að sjá lífið í nýju ljósi og tileinka sér nýjar aðferðir til að efla lífshamingjuna. Leiðirnar tíu byggja á aðferðafræði hjónanámskeiðanna vinsælu sem sr. Þórhallur hefur haldið við Hafnarfjarðarkirkju frá árinu 1996.
„Svo má minna fólk á að hér talsvert úrval af styttri námskeiðum í boði þannig að flestir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Við viljum ekki hvað síst minna á að Virkjun þjónar einnig hlutverki eins konar félagsmiðstöðvar þar sem fólk getur haft það notalegt í góðum félagsskap.“
Heimasíða Virkjunar er: http://virkjun.blog.is/blog/virkjun/
---
VFmynd/pket - Frá kynningu í Virkjun.