Síminn með ráðgjöf í Omnis
Sérfræðingur Símans verður í Omnis Reykjanesbæ í dag fimmtudag og á morgun föstudag, fer yfir þjónustuleiðir og leiðbeinir um tæknina, en Omnis er einn stærsti endurseljandi Símans á landsvísu.
Á þeim rúmu sjö árum sem Omnis hefur unnið með Símanum hafa breytingar á farsímaþjónustu verið miklar. „Hér áður keypti viðskiptavinurinn spjallsíma en nú hringir hann úr snjallsíma sem er ekkert annað en spjaldtölva. Símtölin sjálf nema núna um minnihluta tímans sem fer í símtækið. Síminn er að verða sjónvarpið – fjarstýringin þín líka, dagbókin, myndavélin, tónlistaspilarinn, bankinn og svo margt fleira. Án hans snýst maður í hringi,“ segir Björn Ingi Pálsson, eigandi Omnis Reykjanesbæ.
Ekki aðeins er búið að koma Omnis Reykjanesbæ vel fyrir í gamla Símahúsinu við Hafnargötu 40 heldur vinna þar fyrrum starfsmenn Símans og verða Símanum innan handar þegar hann heimsækir þennan góða samstarfsaðila heim.
Björg Birgisdóttir, sérfræðingur hjá Símanum, segir nýjar þjónustuleiðir hagstæðari við snjallsímanotkun en þær gömlu. „Það er vel þess virði að kíkja við, skoða notkunina og velja þjónustu sem hentar betur. Þá vita ekki allir að með inneignum í GOmobile má greiða niður fjarskiptaþjónustu Símans og aðstoðum við viðskiptavini að tengja GOmobile,“ segir hún.
„Svo er hægt að fá Premium áskrift að Spotify tónlistarveitunni án endurgjalds um hálfs árs skeið með sex mánaða viðskiptasamningi og bæta má yfir fimm hundruð klukkustundum af sjónvarpsefni við áskriftina að Sjónvarpi Símans fyrir aðeins 590 krónur á mánuði. Allir viðskiptavinir sem kíkja til okkar fá ABC Studios sjónvarpsefnið til reynslu í mánuð.“
Björn Ingi og félagar í Omnis fluttu fyrirtækið á Hafnargötu 40 í desember og með samvinnunni við Símann má segja að Síminn sé fluttur heim, því húsið er gamla Símahúsið. „Koparinn góði liggur hér um allt og húsið er undirlagt tækjabúnaði. Það fer heldur ekki á milli mála hvar við erum, því stærðarinnar mastur stendur við húsið,“ segir Björn Ingi Pálsson og stefnir á góð tilboð á völdum símtækjum þessa tvo daga.