Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Simbi kom heim úr leiðangri morgunsins með vettling og prjóna
Grindvíski kötturinn Simbi og ránsfengurinn sem hann kom með heim úr leiðangri í morgun.
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
mánudaginn 15. nóvember 2021 kl. 12:18

Simbi kom heim úr leiðangri morgunsins með vettling og prjóna

Magðalena Margrét Kristjánsdóttir lýsir í dag eftir eiganda að vettling og prjónum sem Simbi, kötturinn hennar, kom með heim til sín úr leiðangri í Grindavík í morgun. Vettlingurinn og prjónarnir eru auglýstir á síðunni „Gæludýr í Grindavík“

„Ég á skerta kattarskömm sem er í því að færa mér alls konar en þetta er alveg nýtt og vil ég endilega koma þessu til baka,“ segir Magðalena í færslunni. Hún fær mikil viðbrögð við uppátækjum Simba og öll að sjálfsögðu jákvæð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í samtali við Víkurfréttirsegir Magðalena að Simbi sé duglegur plokkari og færi eiganda sínum eitthvað plastrusl alla daga. Það sem Simbi kom með heim í dag sé hins vegar eitthvað sem hann hafi aldrei gert áður. Simbi hafi greinilega brotist inn í nágrenninu og stolið vettlingi sem ekki var búið að ljúka við að prjóna. Hann fór vel með ránsfenginn og ekki er að sjá að lykkjufall hafi orðið hjá Simba.

Magðalena tók Simba í fóstur þegar hann var tveggja til þriggja vikna gamall eftir að mamma hans dó. Hann fékk því ekki þetta hefðbundna kisuuppeldi að vera hjá mömmu sinni í fyrstu átta til tólf vikur sem kettlingur og læra hvað má og má ekki.

Magðalena vonast til að eigandi vettlings og prjóna gefi sig fram og fyrirgefi Simba innbrotið. Hún segist vera búin að ræða það við Simba að þessi framkoma við nágranna sína sé ekki boðleg, en það sé ekkert víst að Simbi taki það til greina.