Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Silja með tillögu um rétt barna til upplýsinga um líffræðilega foreldra
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður.
Föstudagur 31. mars 2017 kl. 13:46

Silja með tillögu um rétt barna til upplýsinga um líffræðilega foreldra

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks í Suðurkjördæmi, hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar  um að dómsmálaráðherra verði falið að undirbúa lagabreytingu sem tryggir að börn sem getin eru með tæknifrjóvgun og kynfrumugjöf eigi rétt á upplýsingum um uppruna sinn. Tillöguna lagði Silja fram ásamt Einari Brynjólfssyni og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur.

Hér á landi eiga börn, sem getin eru með tæknifrjóvgun, ekki sjálfstæðan rétt á að fá upplýsingar um hverjir líffræðilegir foreldrar þeirra eru sé notað gjafaegg eða gjafasæði. Í tillögunni segir að þau rök hafi verið fyrir því að leyfa nafnleynd kynfrumugjafa hafa til að mynda verið þau að ef nafnleynd yrði afnumin yrði ólíklegra að fólk gæfi kynfrumuur til tæknifrjóvgunar og fólk sem þyrfti á þjónustunni að halda hefði því ekki aðgengi að henni vegn ónógs framboðs.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í tillögunni er bent á að í bókinni Siðfræði lífs og dauða frá 2003 bendi höfundur, Vilhjálmur Árnason, á að rannsóknir í Svíþjóð sýni að þó að mjög hafi dregið úr sæðisgjöfum fyrst eftir að lög kváðu á um rétt barns til að vita nafn gjafa hafi þeim svo fjölgað á nýjan leik. Vilhjálmur bendir einnig á að ekki megi ýta til hliðar þeim brýnu hagsmunum barns að fá að vita um uppruna sinn til þess eins að bæta úr barnleysi og lina þær þjáningar sem því kunna að fylgja. Með því skapist hætta á að farið sé að „nota barnið sem tæki til að þjóna markmiðum foreldra en horft framhjá því að það er einstaklingur með sjálfstæð réttindi og hagsmuni“.

Flutningsmenn tillögunnar telja mikilvægt að réttindi einstaklings sem getinn er með gjafakynfrumum séu sett í forgrunn og honum tryggður með lögum sjálfstæður réttur til að fá upplýsingar um uppruna sinn. Með því að leyfa nafnleynd kynfrumugjafa líkt og nú er gert sé brotið á rétti einstaklings sem getinn er með þessum hætti. Hafi hann þörf á að fá upplýsingar um uppruna sinn en sé synjað um þær getur því fylgt mikið sálarstríð og erfiðleikar. Mikilvægt sé jafnframt að virða friðhelgi fólks og þröngva ekki þessum upplýsingum upp á einstaklinga, enda geti þörf þeirra fyrir að nálgast þær verið mjög mismunandi og í einhverjum tilvikum ekki til staðar. Æskilegt sé því að upplýsingar um uppruna verði fólki aðgengilegar.