Silja kjörin forseti Norðurlandaráðs og Oddný varaforseti
Silja Dögg Gunnarsdóttir var kosin forseti Norðurlandaráðs fyrir árið 2020 en Ísland tekur þá við formennskunni af Svíþjóð. Næsta Norðurlandaráðsþing fer því fram í Reykjavík í lok október næsta árs. Oddnýju Harðardóttur var kosin varaforseti Norðurlandaráðs.
Forsætisnefnd Norðurlandaráðs er æðsta ákvörðunarvaldið milli hinna árlegu þinga. Forsætisnefndin stýrir og samræmir starf allra nefnda og ráða ráðsins, ber ábyrgð á umfangsmiklum pólitískum og stjórnsýslulegum málum, gerir framkvæmdaáætlun og fjárhagsáætlun og fer með ábyrgð á umfangsmiklum málefnum sem snerta utanríkis- og varnarmál.
Norðurlandaráðsþingið fór fram dagana 29. – 31. okt þar sem stjórnmálafólk frá öllu Norðurlöndunum kom saman í þinghúsi Svíþjóðar í Stokkhólmi. Loftslagsmál, sjálfbærni og þátttaka ungs fólk var meðal annars á dagskrá.
Í ræðu sinni á þinginu þakkaði Silja fyrir traustið sem henni og Oddnýju Harðardóttur var sýnt með því að kjósa þær forseta og varaforseta Norðurlandaráðs. Hún kom víða við í ræðunni en sagði að í formennskutíð Íslands í ráðinu 2020 verðir m.a. lögð áhersla á:
- að standa vörð um lýðræðið með því að berjast gegn upplýsingaóreiðu og falsfréttum sem grafa undan því,
- að standa vörð um líffræðilegan fjölbreytileika sem ógnað er af loftslagsbreytingum, mengun og fleiri þáttum sem rekja má til starfsemi manna,
- að treysta böndin milli Norðurlandabúa með því að efla tungumálakunnáttu innan Norðurlanda til að stuðla að því að þeir geti í sameiningu tekist á við þessi stóru verkefni.