Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Silja fór að gráta eftir samstöðu þingmanna
Miðvikudagur 12. desember 2018 kl. 09:43

Silja fór að gráta eftir samstöðu þingmanna

„Sæluhrollur hríslaðist um mig og ég hugsaði með mér; betri jólagjöf er ekki hægt að fá. Alþingi er enginn venjulegur vinnustaður. Um þessar mundir eiga skringilegir og sorglegir atburðir sér stað sem tengjast Alþingi náið. Þess vegna er svo yndislegt að sjá og heyra þá samstöðu og velvija sem ríkir oftast á meðal þingmanna. Samhljóða samþykkt þessa frumvarps er dæmi um það. Við getum unnið saman að góðum málum og það eigum við að gera,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður í Suðurkjördæmi en í gær var samþykkt á Alþingi lagafrumvarp sem hún lagði fram í haust um að breyta skyldi lögum um barnalífeyri.
Málið snart Silju mikið og hún sagði Velferðarnefnd hafa unnið málið afar vel og afgreitt það í algerri samstöðu. „Þingmenn greiddu atkvæði með málinu og ég fór í alvörunni að gráta úti í bíl fyrir utan bókasafnið, þegar ég heyrði ummæli þeirra í atkvæðaskýringum um málið. Afgreiðsla málsins snart mig djúpt og ég er innilega þakklát öllum þeim sem veittu því framgöngu á Alþingi.

„Lögin fela í sér að börn sem eiga aðeins eitt foreldri á lífi (eða ekki til staðar), geta fengið greitt framlag til hálfs frá ríkinu fyrir sérstaka viðburði, rétt eins og börn sem eiga fráskylda foreldra (meðlagsgreiðendur). Þetta er t.d. kostnaður sem fellur til vegna ferminga, skírna og tannréttinga. Hingað til hafa eftirlifandi foreldrar þurft að bera þennan aukakostnað einir. Nú hefur Alþingi leiðrétt þessa mismunun.
Málið er mjög persónulegt fyrir mér. Þegar ég var í kosningabaráttunni árið 2013 hitti ég unga konu sem hafði misst manninn sinn. Konan var ekkja með tvö ung börn. Hún vakti athygli mína á málinu og bað mig um að skoða þetta ef ég yrði kjörin. Á þeim tíma áttaði ég mig samt ekki almennilega á hvað hún átti við og fylgdi því ekki strax eftir. Mér fannst svo fjarstæðukennt að íslensk lög skyldu ekki ná nógu vel utan um þennan viðkvæma hóp. Síðan gerist það nokkrum árum síðar að góð vinkona okkar hjóna missir mann sinn frá þremur ungum börnum. Sá atburður vakti mig til vitundar um þá stöðu sem upp kemur í fjölskyldum þegar ungir foreldrar falla frá. Skömmu síðar rekst ég á grein eftir Vilborgu Davíðsdóttur rithöfund sem er ekkja og hefur verið ötull talsmaður Ljónshjarta, sem eru samtök fólk sem misst hafa maka. Í greininni fór Vilborg mjög ítarlega yfir hvað þyrfti að gera til að bæta löggjöfina og treysta öryggi þessa hóps.

Í þetta skipti hlustaði ég og framkvæmdi. Allt hefur víst sinn tíma. Ég skrifaði frumvarp og fékk stuðning alls þingflokks Framsóknarflokksins þegar ég lagði það fram. Flokkurinn ákvað jafnframt að leggja frumvarpið fram sem fyrsta forgangsmál þingflokksins á þessu þingi og fyrir það er ég afar þakklát,“ sagði Silja Dögg á Facebook síðu sinni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024