Silja Dögg: Eins og að vera stödd í bíómynd
- Þingmenn Suðurnesja samrýndir á Alþingi
Silja Dögg Gunnarsdóttir nýr þingmaður Framsóknarflokks segir Alþingi vera skrítinn en skemmtilegan vinnustað. Silja sem var kjörin á þing í fyrsta sinn nú í vor segir að nú þegar hafi færst harka í leikinn á þinginu en hún er stöðugt að læra af kollegum sínum sem eru vel upplýstir að hennar mati. Við heyrðum hljóðið í Silju Dögg og spurðum hana út í fyrstu dagana í starfi alþingismanns.
Er þetta eins og þú gerðir þér í hugarlund? Já og nei. Þetta er dálítið sérstök tilfinning að vera komin þangað,“ viðurkennir Silja. „Maður er búinn að stefna að þessu í marga mánuði og berjast fyrir þessu en þegar maður er kominn þangað finnst manni það frekar einkennilegt.“
Silja er einn af forsetum Alþingis og hefur nú þegar stýrt fundum þingsins . „Það var mjög sérstök tilfinning að sitja þarna í stólnum. Lesa upp og banka í bjölluna og allt það,“ segir Silja og hlær. „Það var gaman og gekk bara vel verð ég að segja.“
Silja segir Alþingismenn upp til hópa vera hið indælasta fólk en henni finnst undarlegt að vera skyndilega að vinna með þessu fólki sem hún hafði aðeins séð í fjölmiðlum áður. „Þetta er eins og ég sé komin í einhverja bíómynd með þessu fólki öllu.“ En hvernig vinnustaður er Alþingi? „Skrýtinn (hlær), en skemmtilegur. Þarna er fullt af fólki sem hefur brennandi áhuga á ýmsum málum og er vel inn í hlutnum. Maður er að læra mjög mikið á því að hlusta á allt þetta fólk, úr öllum flokkum. Þetta er gaman.“
Vill meiri léttleika og jákvæðni
Það hefur komið Silju töluvert á óvart hve mikil harka er nú þegar á Alþingi svo skömmu eftir þingsetningu. „Það er búin að vera svakaleg barátta. Stjórnarandstaðan ætlar ekkert að hafa þetta eitthvað notalegt fyrir okkur. Það kom mér á óvart hvað fólk er harðfylgið. Mér skilst að oftast séu málefni á sumarþingi aðeins óumdeildari en gengur og gerist en svo virðist ekki vera. Ég myndi vilja að við myndum gera þetta meira í sameiningu og vera aðeins léttari og jákvæðari.“
Nýjir þingmenn fá ítarlega kynningu á störfum Alþingis áður en byrjað er en einnig er fengist við handbækur. Það er því mikil vinna að koma sér inn í hlutina. „Það er bara eins og gengur í nýjum vinnum. Við leitum til þeirra sem hafa þekkingu á hlutunum. Ég held reyndar að þú verðir bara að vera á staðnum, vinda þér í hlutina og taka þátt. Þannig kemur reynslan. Maður þarf bara að vera ófeiminn, það voru allir einhvern tímann nýjir hérna.“
Suðurnesjamenn á þingi er í miklum samskiptum að sögn Silju en hún og Vilhjálmur Árnason nýr þingmaður Sjálfstæðisflokks frá Grindavík eru sessunautar. „Við höldumst í hendur allan daginn,“ segir Silja og hlær dátt. „Það er mjög gaman að við séum svona mörg af Suðurnesjunum þarna. Við Suðurnesjamenn viljum vinna saman að góðum málum og ég á von á góðu samstarfi þegar fram líða stundir,“ sagði Silja að lokum.
Tengdar fréttir:
Margar óskrifaðar reglur og venjur á Alþingi