Sigurður Bergmann í heimahagana
Sigurður Bergmann tók til starfa á lögreglustöðinni í Grindavík í gær sem aðalvarðstjóri. Hann tekur við af Sigurði Ágústssyni sem er kominn á eftirlaun. Frá þessu er greint á heimasíðu Grindavíkurbæjar.
„Þetta leggst bara ljómandi vel í mig. Þetta er svo sem enginn nýr starfsvettvangur fyrir mig. Ég hóf störf í lögreglunni 1981 og var hér í Grindavík til ársins 2000 en var færður í varðstofuna í Reykjanesbæ. Þar hef ég verið síðan en er nú kominn í heimahagana og þar bíða fullt af spennandi og skemmtilegum verkefnum,“ segir Sigurður.
Sigurður mun sinna hverfislöggæslu í Grindavík og Vogum í samstarfi við lögreglumenn á vöktum. En hvað felst í hverfislöggæslu?
„Í stuttu máli felst það í því að þekkja sitt starfssvæði vel og mynda góð tengsl við íbúa og stofnanir sveitarfélagsins. Þar má nefna barnaverndarnefndir, forvarnarnefndir, félagsþjónustu, umhverfis- og skipulagssvið, skóla og fyrirtæki og ýmis félagasamtök. Þá felst í starfinu móttaka og afgreiðsla ýmissa erinda frá íbúum, rannsókn minni háttar mála og eftir- fylgni þeirra ásamt því að sinna birtingum og boðunum,“ segir Sigurður.
Hann á jafnframt sæti í forvarnarteymi Grindavíkurbæjar og Garði/Sandgerði/Vogum sem fundar minnst einu sinni í mánuði. Þá tekur Sigurður þátt í undirbúningi og þátttöku í árlegum fundum lögreglustjóra með forsvarsmönnum sveitarfélaga og hefur aðkomu að skipulagningu löggæslu á bæjarhátíðum. Sem aðalvarðstjóri tekur Sigurður líka þátt í gerð ársáætlunar fyrir embættið og markmiðasetningu fyrir löggæslu í sveitarfélaginu eða viðkomandi hverfi. Síðast en ekki síst fylgist hann með viðbragðstíma útkalla á sínu starfssvæði og kemur að almannavörnum í sveitarfélögunum.
Sigurður segir að helsta breytingin verði að fara úr vaktavinnu og aðallega í dagvinnu þótt vinnutíminn geti verið óreglulegur en slíkt fer auðvitað eftir því hversu mikið er um að vera hverju sinni. Sigurður sagðist leggja áherslu á að taka vel á móti fólki, líkt og forveri sinni og nafni í starfi. Allir eru velkomnir í kaffi til að ræða málin.