Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sigtryggur vann efnafræðikeppnina
Þriðjudagur 21. apríl 2009 kl. 17:42

Sigtryggur vann efnafræðikeppnina

Sigtryggur Kjartansson varð efstur í landskeppninni í efnafræði en úrslit keppninnar fóru fram 28.-29. mars. Alls tóku 116 nemendur úr 10 framhaldsskólum þátt í forkeppni. Þrettán efstu kepptu svo í úrslitakeppninni sem skiptist í fræðilega og verklega hluta.  Sigtryggur varð þar í 1. sæti eins og áður sagði og verður einn fjögurra fulltrúa Íslands á Alþjóðlegu Ólympíuleikunum í efnafræði sem haldnir verða í Cambridge, Englandi, dagana 18.-27. júlí.

Sigtryggur hefur reyndar látið til sín taka í fleiri keppnum í vetur.  Hann komst einnig í úrslitakeppni landskeppninnar í eðlisfræði og stóð sig með prýði.  Sigtryggur varð einnig í 6. sæti í Þýskuþraut Félags þýskukennara en alls tóku 69 framhaldsskólanemendur þátt í henni.  Í kjölfarið var honum boðin námsdvöl í Þýskalandi í sumar en þarf að hafna því boði vegna efnafræðikeppninnar á Englandi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það þarf ekki að taka fram að Sigtryggur er afburðanemandi en hann hefur verið í Gettu betur liði skólans undanfarin þrjú ár.  Pilturinn er líka fjölhæfur utan veggja skólans en hann leikur m.a. á hljóðfæri og er liðtækur knattspyrnumaður.

Við óskum Sigtryggi til hamingju með árangurinn og óskum honum góðs gengis í Cambridge í sumar, segir á vef Fjölbrautaskóla Suðurnesja og undir þær óskir tökum við á Víkurfréttum.