Sigtryggur Kjartansson dúx FS 2009
Útskrift Fjölbrautaskóla Suðurnesja fór fram laugardaginn 19. desember, en alls voru brautskráðir 52 nemendur. Af þeim voru 48 stúdentar, tveir úr verknámi og tveir sjúkraliðar. Alls komu 36 úr Reykjanesbæ, 6 úr Grindavík, 4 úr Garði, 2 úr Sandgerði og einn úr Vogum. Þar að auki var einn frá Siglufirði, Akureyri og Kópavogi.
Guðlaug Pálsdóttir aðstoðarskólameistari flutti yfirlit um liðna önn og Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti prófskírteini. Jóhanna María Kristinsdóttir nýstúdent flutti ávarp fyrir hönd brautskráðra og Leifur A. Ísaksson kennari flutti útskriftarnemum kveðjuræðu starfsfólks. Nýstúdentarnir Sævar Bachmann Kjartansson og Sigtryggur Kjartansson fluttu tónlist, en Sævar spilar á básúnu og Sigtryggur á píanó.
Veittar voru fjölmargar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Eva Dögg Óskarsdóttir fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í fata- og textílgreinum, Katla Hlöðversdóttir fyrir líffræði og Anna Þórunn Guðmundsdóttir fyrir góðan árangur í stærðfræði á félagsfræðibraut. Vilhjálmur Maron Atlason fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í eðlisfræði á viðskipta- og hagfræðibraut og hann fékk einnig viðurkenningu fyrir árangur sinn í ensku, Elísabet Guðjónsdóttir fyrir þýsku, efnafræði og líffræði og Sævar Bachmann Kjartansson fyrir frönsku, líffræði og jarðfræði. Guðrún Hildur Jóhannsdóttir fékk viðurkenningar fyrir félagsfræði, spænsku og sögu.
Arnþór Elíasson fékk gjöf frá Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir góðan árangur í stærðfræði og hann fékk einnig viðurkenningar fyrir góðan árangur í stærðfræði og raungreinum, ensku og spænsku. Sólveig Dröfn Jónsdóttir fékk gjöf frá Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir góðan árangur í stærðfræði og frá Kanadíska sendiráðinu fyrir afburðaárangur í ensku og frönsku. Sólveig fékk auk þess viðurkenningar frá skólanum fyrir árangur sinn í stærðfræði á málabraut, sögu, ensku, íslensku, spænsku, dönsku og frönsku. Sigtryggur Kjartansson fékk gjafir frá Verkfræðistofu Suðurnesja og Íslenska stærðfræðafélaginu fyrir góðan árangur í stærðfræði og hann fékk einnig viðurkenningu frá Efnafræðifélagi Íslands fyrir árangur sinn í efnafræði. Þá fékk Sigtryggur viðurkenningar frá skólanum fyrir góðan árangur í eðlisfræði, efnafræði og jarðfræði, ensku, íslensku, þýsku og dönsku auk viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur í stærðfræði.
Guðbjörg Ingimundardóttir afhenti við athöfnina styrki úr styrktarsjóði Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Sjóðurinn var stofnaður af Kaupfélagi Suðurnesja og Gunnari Sveinssyni, fyrrverandi kaupfélagsstjóra og fyrsta formanni skólanefndar Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Tilgangur sjóðsins er að efla og auka veg skólans með því að styrkja nemendur skólans til náms, að styðja við starfsemi sem eflir og styrkir félagsþroska nemenda og að veita útskriftarnemendum viðurkenningar fyrir frábæran árangur í námi og starfi. Lilja Björg Jökulsdóttir, Ragnheiður Eir Magnúsdóttir, Tanía Björk Gísladóttir og Sölvi Logason fengu öll 20.000 kr. styrk fyrir góða frammistöðu í ræðumennsku í lífsleikniáföngum. Þeir Arnþór Elíasson, Pétur Elíasson og Sigtryggur Kjartansson fengu 30.000 kr. styrk fyrir góðan árangur í Gettu betur.
Að venju veitti Sparisjóðurinn í Keflavík nemendum skólans viðurkenningar fyrir góðan námsárangur og afhenti Baldur Þórir Guðmundsson þær fyrir hönd Sparisjóðsins. Guðrún Hildur Jóhannsdóttir fékk verðlaunin fyrir árangur í samfélagsgreinum og Sigtryggur Kjartansson fyrir tungumál, íslensku og stærðfræði og raungreinar. Sigtryggur hlaut einnig viðurkenningu fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi og fékk að launum 100.000 kr. styrk frá Sparisjóðnum.
Að lokum sleit Kristján Ásmundsson skólameistari haustönn 2009.
Hægt er að sjá fleiri myndir í ljósmyndasafni Víkurfrétta.
VF-myndir/HBP
Sigtryggur Kjartansson hlaut viðurkenningu fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi.