Sigríður var hæfust umsækjenda

Fram kom á sínum tíma að sérstök hæfnisnefnd raðaði Sigríði og Skúla í fyrsta sæti umsækjenda og stjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja mælti með ráðningu Skúla.
Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra ákvað að skipa Sigríði í embættið á þeirri forsendu að framkvæmdastjórar þyrftu að hafa sérþekkingu á rekstri sjúkrahúsa en lét þess einnig getið í fréttatilkynningu að mið hefði verið tekið af ákvæðum jafnréttislaga.
Í rökstuðningi heilbrigðisráðuneytisins er ítrekað það mat ráðherra að Sigríður hafi verið hæfust umsækjenda. Umboðsmaður telur að þau sjónarmið sem fram koma í rökstuðningi ráðuneytisins verði að teljast málefnaleg. "Þegar á heildina er litið og að teknu tilliti til þess að ályktun handhafa veitingarvalds um starfshæfni umsækjenda er ávallt að ákveðnu marki háð óvissu sem ekki verður undan vikist tel ég ekki forsendu til að gera athugasemd við þá niðurstöðu að Sigríður skyldi skipuð í starfið þar sem hún teldist hæfust umsækjenda," segir í álitinu sem sent hefur verið málsaðilum, segir í Morgunblaðinu í dag.