Sigríður fyrsti kvenkyns formaður GSG
Sigríður Erlingsdóttir er nýr formaður Golfklúbbs Sandgerðis.
Sigríður Erlingsdóttir var í síðustu viku kjörinn formaður Golfklúbbs Sandgerðis. Hún er fyrsta konan til að gegna þessu embætti í sögu GSG en hún tekur við af Sigurjóni Gunnarssyni sem hefur verið formaður klúbbsins undanfarin ár. Þrír einstaklingar sóttust eftir því að leiða klúbbinn en Sigríður hafði betur í kosningu og var kjörin formaður til næsta starfsárs. Í samtali við Víkurfréttir kveðst Sigríður spennt fyrir komandi starfsári.
„Ég er mjög sátt með kjörið til formanns. Innra starfið hjá okkur er alltaf að eflast og gaman að sjá þessa góðu mætingu sem var á aðalfundinum,“ segir Sigríður en alls mættu um 60 manns á aðalfund GSG sem fram fór í síðustu viku. Golfklúbbur Sandgerðis var stofnaður árið 1986 og fagnar því 27 ára afmæli sínu í ár.
„Formannsembættið leggst mjög vel í mig. Ég er með mikið af góðu fólki í kringum mig í stjórninni og það hjálpar til. Ég var í stjórninni á síðasta ári þannig að ég þekki starfið hjá klúbbnum vel. Það er mikið að gerast hjá klúbbnum og allt árið um kring. Við erum með völlinn opinn yfir vetrartímann. Það hefur verið mikil umferð kylfinga af höfuðborgarsvæðinu til okkar yfir vetrartímann og mótin okkar fyllast nánast samstundis,“ segir Sigríður.
Tók fram kylfurnar milli barneigna
Sigríður lék golf á yngri árum en hætti svo um nokkurra ára skeið. Hún tók fram kylfurnar að nýju eftir að hún eignaðist sitt fyrsta barn og hefur leikið golf síðan. „Ég var í golfi sem barn og unglingur. Ég byrjaði aftur á milli barneigna en núna er ég á fullu í golfi. Maðurinn minn er byrjaður í golfi og börnin eru líka farin að kíkja með mér út á völl,“ segir Sigríður. Hún er mjög bjartsýn á framtíð klúbbsins sem hefur sína sérstöðu hér á landi.
„Okkar helsta sérstaða er að völlurinn er opinn inn á sumarflatir allan ársins hring. Kirkjubólsvöllur er sífellt að verða betri og betri. Hann var svolítið hrár fyrst þegar við opnuðum sem 18 holur en við eigum frábært fólk sem hefur lagt á sig ómælda sjálfboðavinnu við að laga til völlinn til. Völlurinn tekur sífellt framförum. Framtíð GSG er björt.“