Sigmundur hættir sem slökkviliðsstjóri
Sigmundur Eyþórsson skrifaði í dag undir starfslok sín sem slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja. Jón Guðlaugsson, varaslökkviliðsstjóri, hefur verið settur slökkviliðsstjóri í hans stað. Sigmundur hættir störfum hjá Brunavörnum Suðurnesja (BS) frá og með deginum í dag. Hann sagðist í samtali við Víkurfréttir hætta sáttur en fara frá starfinu með talsverðri eftirsjá, þar sem spennandi tímar væru framundan hjá BS, en sameining Brunavarna Suðurnesja við Slökkvilið Keflavíkurflugvallar og Slökkvilið Sandgerðis hefur verið í undirbúningi um nokkurt skeið.
Ekki hefur verið eining um störf Sigmundar innan stjórnar BS síðustu misseri og setti stjórnin Sigmund í launað leyfi nú nýverið. Ástæðan er sögð vera samskipti Sigmundar við Víkurfréttir (sem reka vf.is) og að veita fjölmiðlinum aðgang að uppkallsrásum BS í Tetra-fjarskiptakerfinu.
Sigmundur mun fara til annarra starfa en á mjög svipuðum starfsvettvangi. Hann vildi ekki upplýsa nánar um starfið, nema að það væri spennandi tækifæri þar sem menntun hans myndi nýtast mjög vel. Sigmundur er tæknifræðingur B.Sc. í eldvarnar- og öryggismálum frá Oklahoma State University í Bandaríkjunum og með rekstrar- og viðskiptafræði frá Endurmenntun Háskóla Íslands.
Sigmundur vildi koma á framfæri kveðjum til allra fyrrverandi starfsmanna hans hjá BS með óskum um að BS haldi áfram að vaxa og dafna hjá nýjum slökkviliðsstjóra.
Mynd: Sigmundur Eyþórsson fráfarandi slökkviliðsstjóri og Jón Guðlaugsson, settur slökkviliðsstjóri.