Sigmar: Petrína opinberar óheilindi sín
Sigmar Eðvaldsson, oddviti sjálfstæðismanna í Grindavík, gerir hikið sem kom á meirihlutasamstarfið í Grindavík fyrir páska að umtalsefni á vef sínum, www.sigmar.is, í dag. Þar birtir hann meðal annars viljayfirlýsinguna sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn höfðu undirritað. Hann tjáir sig einnig um atburðarásina sem við endurbirtum hér með góðfúslegu leyfi:
„Mánudaginn 6. apríl hringdi Petrína Baldursdóttir oddviti Framsóknarflokksins í mig og vildi láta mig vita að nú kynni að draga til tíðinda varðandi meirihlutasamstarfið með Samfylkingunni. Petrína sagði að nú væru þau að gefast upp á samstarfinu við Samfylkinguna vegna ráðningu skólastjóra Hópsskóla og á ófaglegum vinnubrögðum bæjarstjóra. Ákveðið var að heyrast aftur daginn eftir og plana með hvaða hætti hægt yrði að sameinast um tillögu sem Framsókn og Sjálfstæðisflokkur gætu bæði greitt atkvæði með á bæjarstjórnarfundinum. Á miðvikudagsmorgninum var búið að fullmóta frestunartillöguna sem flutt yrði á bæjarstjórnarfundinum og síðan hittust bæjarfulltrúar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks á heimili eins bæjarfulltrúans til að leggja lokahönd á undirbúningin. Einnig var rætt óformlega meirihlutasamstarf og einstök mál sem unnið skyldi að í nýju samstarfi. Í lok fundar eða klukkustund fyrir bæjarstjórnarfund var Sjálfstæðismönnum falið að stilla upp viljayfirlýsingu sem bæjarfulltrúar beggja flokka skyldu undirrita um kvöldið eftir bæjarstjórnarfundin.
Síðar um kvöldið hittust 4 fulltrúar Sjálfstæðisfélags Grindavíkur og tveir fulltrúar Framsóknarfélagsins til að rita undir viljayfirlýsinguna. Petrína óskaði eftir því við okkur hvort okkur væri sama að undirritunin ætti sér stað morgunin eftir því þá liti það betur út gagnvart henni og hennar baklandi. Okkur var sama og því ákveðið að hittast klukkan 11 fimmtudaginn 9. apríl og undirrita. Þessi ákvörðun var handsöluð af öllum viðstöddum og jafnframt ákveðið að ekki yrði rætt við aðra aðila meðan þessir flokkar væru að ræða saman. Annan í páskum voru bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar í sambandi og okkur tjáð að búið væri að senda riftunarbréf til Samfylkingarinnar. Þennan dag höfðu fulltrúar Samfylkingarinnar tvívegis samband við formann Sjálfstæðisfélagsins og óskuðu eftir viðræðum sem var hafnað á grunni undirritaðar viljayfirlýsingar.
Þriðjudaginn 14. apríl fréttum við að bæjarfulltrúar Framsóknar voru að funda við Samfylkinguna á sama tíma og fundartími með okkur var ákveðin. Um klukkan 16.00 hringdi Petrína í mig og sagði að hún vildi draga til baka undirritun sína á viljayfirlýsingunni því þau hefðu ákveðið að fara aftur í samstarf með Samfylkingu. Það er með ólíkindum hvernig Petrína opinberar óheilindi sín og kemur því ekki á óvart að samstarf meirihluta flokkana er ekki betra en raun ber vitni með báða oddvitana þannig að þeim er ekki treystandi“, segir Sigmar Eðvaldsson, oddviti sjálfstæðismanna í Grindavík á vef sínum, www.sigmar.is.