Siggi TV kveikir á Kanaútvarpinu 1. september
Sigurður Jónsson eða Siggi TV, fyrsti „útlendingurinn“ sem fékk vinnu hjá Kanaútvarpinu, hinu eldra, mun fá þann heiður að kveikja á útsendinum nýja Kanaútvarpsins þriðjudaginn 1. september nk. kl. 09:00.
Siggi hóf störf hjá Kanaútvarpinu fyrir réttum 50 árum síðan eða árið 1959. Hann hætti störfum skömmu áður en Keflavíkurstöðin var lögð niður en mun endurvekja minningar þegar hann kveikir á nýrri útvarpsstöð. Tæknin í dag er allt önnur en sú þegar Siggi hóf störf hjá Kanaútvarpinu og Kanasjónvarpinu. Siggi fór með útvarpsfólki af nýja Kananum um sýninguna Völlurinn í DUUShúsum í gær. Þar er meðal annars útsendingarborð frá gamla Kanaútvarpinu og fyrsti hljóðnemi Kanaútvarpsins.
Á meðfylgjandi myndum má sjá þá Sigurð Jónsson, Einar Bárðarson og Gunnlaug Helgason. Einar er eigandi nýja Kanaútvarpsins, Sigurður er fyrsti „útlendingurinn“ sem starfaði hjá Kanaútvarpinu á sínum tíma og Gunnlaugur Helgason varð jafnframt fyrsti „útlendingurinn“ til að senda út útvarpsþátt í fullri lengd í Kanaútvarpinu.
Gulli Helga sleikir útum þegar hann skoðar fyrsta hljóðnema kanaútvarpsins. Siggi TV segir honum frá græjunni og Einar Bárðar fylgist með af athygli. Ef hljóðneminn er borinn upp að eyranu má heyra hljóm liðinna tíma... Myndir: Hilmar Bragi
Framvarðasveit Kanaútvarpsins hins nýja sem verður á FM 91,9 og byrjar 1. sept.