Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Síðustu skólaslit Gylfa
Laugardagur 5. júní 2004 kl. 17:46

Síðustu skólaslit Gylfa

Í dag var Njarðvíkurskóla slitið og fjölmargir efnilegir nemendur útskrifaðir. Það sem bar samt einna hæst var sú staðreynd að þetta var í síðasta skipti sem Gylfi Guðmundsson, skólastjóri, slítur skólastarfi eftir að hafa verið við stjórnvölinn í 21 ár.

Tveir bekkir voru útskrifaðir og var árangur sumra með miklum ágætum og voru verðlaun veitt fyrir námsárangur eins og venjulega.

Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir var verðlaunuð fyrir að hafa hæstu meðaleinkunn og einnig fyrir góðan árangur á samræmdu prófi í dönsku. Eyrún Erla Sigurgeirsdóttir fékk einnig viðurkenningu fyrir dönsku, Vaka Hafþórsdóttir fékk viðurkenningu fyrir árangur í ensku og Linda Björg Jónsdóttir fékk viðurkenningu fyrir hæstu einkunn í saumi.

Flest verðlaun hlaut þó Víðir Einarsson sem var verðlaunaður fyrir náttúrufræði, stærðfræði, íslensku og samfélagsfræði.

Sveinn Enok Jóhannsson, formaður nemendafélagsins fékk viðurkenningu fyrir félagsstörf og rifjaði upp störf vetrarins í stuttri ræðu.

Þá afhentu Lionsklúbburinn og Lionessuklúbburinn í Keflavík skólanum góða gjöf, fullbúna tölvu með öllu tilheyrandi, sem skal notast í sérdeildinni Björk

Að lokum sleit Gylfi skólanum formlega og þakkaði fyrir sig og var kvaddur með dúndrandi lófaklappi.

VF-mynd/Þorgils Jónsson: Útskriftarhópurinn 2004 ásamt skólastjóra og aðstoðarskólastjóra

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024