Síðustu leyfar Kanasjónvarpsins til sölu
Ertu orðinn leiður á þeim sjónvarpsstöðvum sem þú nærð og vilt fjölga sjónvarpsrásunum? Nú er tækifærið að kaupa heilan frumskóg af gervihnattamóttökurum og eignast einnig þrjá örbylgjusenda.
Ríkiskaup auglýsa í dag til sölu leyfar Kanasjónvarpsins á Keflavíkurflugvelli. Um er að ræða gervihnattadiska og örbylgjusenda í umsjón Landhelgisgæslu Íslands. Búnaðurinn stendur við húsnæði Kanasjónvarpsins innan öryggissvæðis Keflavíkurflugvallar.
Ekki er vitað um ástand búnaðarins en hann verður allur seldur í einu lagi og þarf kaupandi að fjarlægja búnaðinn og ganga snyrtilega frá svæðinu.
Gervihnattadiskar:
1stk. Þvermál ca 700cm
1stk. Þvermál ca 480cm
2stk. Þvermál ca 440cm
3stk. Þvermál ca 320cm
Örbylgjuloftnet:
2stk í mastri,
1stk á jörð við hús.
Þeir sem vilja kynna sér ástand búnaðarins geta haft samband við Landhelgisgæsluna á Keflavíkurflugvelli í síma 425 5000 á skrifstofutíma. Tilboðum þarf svo að skila til Ríkiskaupa fyrir kl. 10:00 þann 8. nóvember nk.