Síðasti bæjarstjórnarfundurinn í dag
Síðasti bæjarstjórnarfundurinn í Reykjanesbæ á þessu kjörtímabili verður haldinn í dag í Bíósal Duushúsa. Um tímamótafund er að ræða þar sem margir þeirra bæjarfulltrúa sem nú sitja munu nú hverfa úr bæjarstjórn og nýtt fólk taka við eftir sveitarstjórnarkosningarnar í lok þessa mánaðar.
Hjá Sjálfstæðisflokki verða umtalsverðar mannabreytingar en aðeins tveir af sjö núverandi aðalbæjarfulltrúum hans gáfu kost á sér til áframhaldandi starfa. Það eru þeir Árni Sigfússon og Böðvar Jónsson. Kosningabandalagi A-listans lýkur þar með en flokkarnir sem það mynduðu munu bjóða fram undir eigin merkjum.
Guðbrandur Einarsson, oddviti A-listans og Samfylkingarinnar, mun sitja sinn síðasta bæjarstjórnarfund í kvöld þar sem hann ákvað að draga sig í hlé eftir prófkjör Samfylkingarinnar í vor. Gamalreyndir bæjarfulltrúar til margra ára munu hverfa úr bæjarstjórn eins og Björk Guðjónsdóttir hjá Sjálfstæðiflokki og núverandi forseti bæjarstjórnar.
Á dagskrá fundarins eru tíu mál en honum lýkur með formlegum ávörpum fulltrúa flokkanna og forseta bæjarstjórnar.
Fundir bæjarstjórnar hefjast kl. 17 í Bíósal Duushúsa og eru opnir almenningi.
Dagskrá fundarins má sjá hér