Síðasta smalamennska á Reykjanesi
Þúsund ára sögu smalamennsku á Reykjanesskaganum er lokið. Næsta ár verður lausaganga sauðfjár bönnuð á svæðinu. Það viðraði ekki vel á smalamennina á laugardaginn, þótt hafi verið gott veður þegar lagt var af stað. Fljótlega gerði hífandi rok og rigningu. Aðstæður til smalamennsku voru því bæði erfiðar fyrir menn og skepnur. Menn létu veðrið þó ekkert á sig fá og skipti engu þótt sumir væru nýbúnir að gangast undir hjartaígræðslu. Helgi Einar Harðarson, sem fór í hjarta- og nýrnaígræðslu fyrr í sumar, var mjög brattur og sagði smalamennskuna hafa gengið vel. Vegna veðurs smalaðist illa en sexhundruð fjár voru rekin á fjall. Hörður Sigurðsson, bóndi á Hrauni, sagði að heimtur hefðu líklega ekki verið nema um 80 af hundraði. Smalamennskunni er því ekki alveg lokið, en því sem næst. Nýta á helgar þegar veður er gott og reyna að ná afganginum af fénu í hús. Áfram verður réttað í Þórkötlustaðarrétt í Grindavík.
Ljósmyndir: Hilmar Bragi Bárðarson