Sex umferðarslys á Grindavíkurvegi frá áramótum
Í morgun varð enn eitt umferðaróhappið á Grindavíkurvegi þegar jappabifreið fór út af veginum skammt frá afleggjarnum við Bláa lónið. Ökumaðurinn festist með fætur undir jeppanum. Þetta er sjötta umferðarslysið á Grindavíkurvegi frá áramótum, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu,
Frá áramótum hafa orðið sex umferðaróhöpp á Grindavíkurvegi þar sem þurft hefur aðkomu lögreglu og björgunarliðs. Auk þess sem vitað er um nokkur tilfelli þar sem bílar fóru út af veginum án þess að tjón hafi orðið og því ekki tilkynnt til lögreglu.
Þetta eru óvenju mörg umferðaróhöpp á aðeins sex vikum. Slys varð á fólki í flestum tilfellum og eignatjón mikið. Þann 6. janúar varð bílvelta við Svartsengi. Þann 30. janúar varð útafakstur, daginn eftir bílvelta við Seltjörn, önnur bílvelta varð 3. febrúar við afleggjarann við Bláa lónið og þá varð bílvelta sunnan við Þorbjörn þann 8. febrúar. Sjötta óhappið varð svo í morgun.
Lögreglan bendir á að aðstæður á Grindavíkurvegi frá áramótum hafi oft verið erfiðar og varasamar þar sem hálka og snjókrap var á veginum í flestum tilfellum, segir á vef Grindavíkurbæjar.
Meðfylgjandi myndir voru annars vegar teknar í morgun og hins vegar þann 3. febrúar sl.
Myndir: Víkurfréttir / Hilmar Bragi