Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sex Suðurnesjamenn af tíu í þingmannahópi Suðurkjördæmis
Jóhann Friðrik Friðriksson, Framsóknarflokki með Erlu Hafsteinsdóttur, eiginkonu sinni á kjörstað í september 2021. VF-mynd/pket.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 26. september 2021 kl. 11:15

Sex Suðurnesjamenn af tíu í þingmannahópi Suðurkjördæmis

Sex Suðurnesjamenn eru meðal tíu þingmanna í Suðurkjördæmi. Jóhann Friðrik Friðriksson, Framsóknarflokki og Hólmfríður Árnadóttir, Vinstri grænum eru nýir Suðurnesjamenn í hópnum en Framsókn vann stóran kosningasigur og bættu við sig þriðja þingmanninum. Flokkur fólksins náði líka frábærum árangri og er þriðji stærsti flokkurinn í kjördæminu.

Sjálfstæðisflokkurinn er stærstur með 24,6% og þrjá þingmenn, þau Guðrúnu Hafsteinsdóttur, Vilhjálm Árnason og Ásmund Friðriksson. Framsókn er aðeins hálfu prósenti  minni eftir mikla fylgisaukningu, 23,9% með þingmennina Sigurð Inga Jóhannsson, Jóhann Friðrik Friðriksson og Hafdísi Hrönn Hafsteinsdóttur en þau Jóhann og Hafdís eru nýliðar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Flokkur fólksins náði frábærum árangri í kjördæminu og fékk 12,9% og einn þingmann, Ásthildi Lóu Þórsdóttur. Miðflokkurinn með Birgi Þórarinsson héldu einum þingmanni með 7,4%. Vinstri græn fengu 7,4% og héldu sínum þingmanni og þar kom Hólmfríður Árnadóttir ný inn sem uppbótarþingmaður. Samfylking með Oddnýju G. Harðardóttur hélt einum þingmanni með 7,6% fylgi og Píratar fenguu 5,6% og töpuðu manni. Viðreisn fékk 6,2% með Suðurnesjamanninn Guðbrand Einarsson en hann var inni og úti í könnunum og á kosninganótt en endaði úti í kuldanum. Sósíalistaflokkurinn fékk 3,7% og Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn fékk 0,6 og hvorugt framboðið var nálægt því að ná inn manni.

Hólmfríður Árnadóttir, Vinstri grænum á kjörstað í Sandgerðisskóla í september 2021 með manni sínum, Hannesi Jóni Jónssyni. VF-mynd/pket.

Rúmlega 8574 manns kusu í Fjölbrautaskóla Suðurnesja sem var kjörstaður fyrir íbúa í Reykjanesbæ, eða 73,3%.