Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sex ára stúlka með 10 cm langt sleikjóprik fast í hálsi í sólarhring – Móðirin afar ósátt við vinnubrögðin á HSS
Fimmtudagur 11. október 2007 kl. 18:05

Sex ára stúlka með 10 cm langt sleikjóprik fast í hálsi í sólarhring – Móðirin afar ósátt við vinnubrögðin á HSS

Kaja Ósk Skarphéðinsdóttir, móðir 6 ára gamallar stúlku í Keflavík, er afar ósátt við vinnubrögðin á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) en barnið var með 10 sentimetra langt sleikjóprik fast í hálsinum í sólarhring þar sem læknir neitaði að fara að ósk móðurinnar um að athuga háls stúlkunnar, sem ítrekað hafði kastað upp blóði. Móðurinn fór með stúlkuna á Borgarspítalann. Þar tókst læknum og hjúkrunarfólki að ná prikinu úr hálsi stúlkunnar með því að svæfa hana og var hún í kjölfarið lögð inn á gjörgæslu vegna mikillar sýkingarhættu.


Kastaði upp blóði

Kaja segir svo frá að dóttir hennar, Steinunn Erla, hafi ekkert viljað borða á mánudagskvöldið en hún hefur alltaf verið mjög hraust og borðað vel. Kaja þurfti nokkra eftirgangsmuni til að fá stúlkuna til að koma fram í eldhús að borða en tókst það að lokum. Stúlkan var nýsest við matarborðið þegar hún kastaði upp. Kaja ályktaði sem svo að stúlkan væri komin með pest og hleypur með hana fram á salerni, þar sem stúlkan heldur áfram að kasta upp.
„ Hún hélt um hálsinn á sér, veinaði sáran  og sagðist meiða sig svo mikið í hálsinum. Þá fer að spýtast blóð upp úr henni. Það komu fjórar gusur og ég sá þetta var mest tært blóð,“ segir Kaja.


Þriggja klukkustunda bið á slysadeild


„Ég hringi niður á spítala  og segi þeim að barnið mitt sé að æla blóði og spyr hvað ég eigi að gera. Mér er að sagt að það sé brjálað að gera en ég geti komið með barnið, sem ég og gerði. Eftir að hafa greitt komugjaldið er mér vísað inn á slysadeild. Þar lognast barnið útaf og sofnar í höndunum á mér. Ég legg hana á rúm sem er þarna á ganginum og þá byrjar hún að kúgast aftur. Augnabliki síðar kemur  kona hlaupandi af röngendeildinni með poka fyrir mig. Stelpan byrjaði aftur að æla blóði en þá kemur læknirinn fram og spyr hvað sé í gangi. Ég segi honum að stúlkan hafi verið að æla blóði og hún kvarti yfir verk í hálsinum. Ég sagðst halda að eitthvað hefði rifnað í hálsinu á henni.
Læknirinn tekur pokann, fer inn, kemur svo fram aftur og segir að það sé munnvatn í blóðinu þannig að það hljóti að æð að hafa sprungið. Hann athugar púlsinn hjá henni og svo fer hann bara.
Við bara bíðum og bíðum og að klukkutíma liðnum kemur læknirinn aftur og spyr hvort við viljum ekki færa okkur inn á deild í stað þess að bíða þarna frammi. Stelpan var sofandi, sefur í einn og hálfan tíma og á meðan er læknirinn að sinna öðrum málum. Á þeim u.þ.b. þrem tímum sem við biðum þarna kom hann í þrjú til fjögur skipti, bara kíkir en gerir ekki neitt, segir bara að þetta sé þessi æð vélindanu, það sé algengast að það rifni þar,“ segir Kaja.

Send heim með barnið

Kaja segist hafa bent lækninum á að dóttir hennar kvartiði yfir verk í hálsinum, hún gæti hvorki talað né kyngt. Í hvert skipti sem hún vakni haldi hún um hálsinn á sér og gráti. „Hann stóð hins vegar fast á því að þetta væri rifin æð í vélinda. Ég spyr hann þá hvort hann geti ekki kíkt á hálsinn á henni. Viðbrögðin voru þau að hann teiknar skýringamynd á hlífðarpappírinn á sjúkrarúminu - hér er maginn, hér er vélindað og hér er algengt að rifni, segir hann til útskýringar. Ég bendi honum enn og aftur á að barnið haldi um hálsinn á sér.
Hann verður hálf-pirraður og spyr barnið hvort hún geti opnað munninn. Hún hristi höfuðið, hann kíkir eitthvað upp í hana og segir að tungan sé eðlileg og gómurinn bleikur sem sé fínt. Segir okkur síðan við getum farið heim, enda hafi barnið ekki kastað upp í klukkutíma, þannig að þetta hljóti að vera gengið yfir.  Ég vissi varla hvað ég átt að segja, ég var margoft búinn að benda honum að á að barnið héldi um hálsinn og fyndi greinilega til þar. Ég benti einnig á að hún hafi alltaf verið hraust og kvarti ekki nema henni sé virkilega illt. Hún væri ekki barn sem vældi yfir engu. Hann leiddi það alltaf hjá sér og sagði að þetta væri bara í maganum á henni.
Þegar ég er að fara segir læknirinn mér að Sigurður (barnalæknir) sé þarna á morgun og ég geti komið til hans kl. fimm ef ég telji mig þurfa þess.  Með það fer ég heim.“


Grét alla nóttina

„Barnið var grátandi alla nóttina í fanginu á mér og gat ekkert sofið.“ heldur Kaja áfram.  „Morguninn eftir hringdi ég aftur niður á spítala. Ég hringdi nokkrum sinnum til að athuga hvort Sigurður væri kominn. Loks fæ ég þau svör að hann væri væntanlegur um hádegið. Ég óskaði eftir því að henni yrði komið til hans í fyrsta tíma með tilltiti til aðstæðna, enda væri barnið sárkvalið og búið að vera það alla nóttina. Svarið var nei, það væri ekki hægt. Ég bað þá um að Sigurður yrði látinn hringja í mig. Um hádegið er hringt í mig til baka og kona í símanum segir mér að það sé bara ekki hægt að troða henni inn. Hún verði bara að bíða en ef eitthvað losni verði ég látinn vita.
Klukkan hálf fimm síðar um daginn  losnar tími, hálftíma fyrir þann tíma sem mér hafði verið úthlutað. Ég bruna niður á spítala og inn til Sigurðar. Hann byrjar á því að reyna að kíkja upp í hana, sem gekk ekkert alltof vel þar sem hún átti í erfiðleikum með að opna munninn. Honum tekst með natni að fá hana til þess að opna og nær að ýta tungunni niður. Þá strax sá hann að eitthvað var greinilega að í hálsi barnsins. Hann sýnir mér þetta og ég sé að að það er eins og hálsinn á barninu sé fullur af einhverju ógeði. Sigurður gat samt ekki séð hvað þetta var. Þarna var að verða liðinn sólarhringur frá því ég kom með barnið niður á spítala,“ segir Kaja.


Svæfing á Borgarspítalanum

Kaja segir að Sigurður hafi að svo komnu hringt í lækna á Borgarspítalanum og skýrt þeim frá málavöxtum. „Hann sagðist ekki vita hvað væri í hálsi barnsins og þar sem hann væri  ekki sérfræðingur á sviði háls- nef og eyrnalækninga, óskaði hann eftir aðstoð. Það varð úr að ég bruna með barnið inneftir,“ segir Kaja
Á Borgarspítalanum fékk Steinunn Erla deyfingu og myndavél var þrædd í gegnum nef hennar Á myndunum sást að í hálsinum var aðskotahlutur sem talið var vera einhvers konar rör.  Stúlkan neitaði því samt að hafa gleypt eitthvað.

„Þeir reyndu að deyfa hana betur til að komast að þessu með töng og rífa þetta úr. Þá tryllist stúlkan af sársauka og útséð var að þetta yrði ekki gert nema með svæfingu. Röngenmyndataka leiddi í ljós aðskotahlut sem virtist vera skorðaður í hálsinum á milli koks og nefs við hliðina á öndunarveginum. Þetta lá á vondum stað og af þessu stafaði mikil sýkingarhætta því greinilegt var að þarna hafði myndast opið sár.  Því  næst var kallað út aukalið sérfræðinga, þar sem mjög varasamt er að svæfa barn við þessar aðstæður. Síðan var farið með hana upp á skurðstofu og hún svæfð. Þeir náðu þessu út með töngum og þá kom í ljós að þetta var 10 cm plastprik af sleikjópinna. Hún hefur líkast til sofnað með sleikjóinn og hann hrokkið ofan í hana. Þegar hún fór að kasta upp hefur hann farið upp og skorðast á þessum stað. Prikið var búið að vera þarna í sólarhring, það hafði gert gat á hálsinn og þess vegna gat hún ekki talað, ekki borðað eða kyngt. Hún var ekkert búin að drekka í sólarhring og  var að þorna upp. Hún lá inn á gjörgæslu fyrradag, alveg til kl. eitt um nóttina og með sýklalyf í æð fram undir morgunn þar sem sýkingarhættan var  mikil. Hún er á sýklalyfjum núna og fer í skoðun strax eftir helgi, þá kemur í ljós hvernig þetta lítur út og hvort frekari aðgerða er þörf,“ segir Kaja.


Ekki í fyrsta skipti

Kaja segist afar ósátt við vinnubrögðin á HSS, ekki síst vegna þess að hún hafi þrábeðið um að háls Steinunnar Erlu væri athugaður. Þrátt fyrir það hafi ekkert verið gert.
Hún segist  áður hafa lent í sviðuðum viðbrögðum á HSS með eldri dóttur sína og ítrekað þurft að aka með hana á sjúkrahús í Reykjavík þar sem ekki var viðunandi þjónustu að fá á HSS.
„Oftar en einu sinni hafa læknar innfrá tjáð mér að hefði ég komið háltíma síðar hefði barnið líklega dáið. Ég hef hringt og kvartað, þeir hafa fengið áminningu og svo er það bara búið mál.
Sem betur fer ákvað ég að hlusta á barnið en ekki læknana, því annars hefði ég bara verið með hana  heima og þá er ekki gott að segja hvernig hefði farið. Sárið hefði getað stækkað, hún hefði getað kafnað eða fengið alvarlega sýkingu,“ sagði Kaja.


Rétt er að taka fram að VF sendi forsvarsmönnum HSS erindi nú síðdegis þar sem stofnuninnni er gefinn kostur að að skýra málið frá sinni hlið. Kjósi forsvarsmenn HSS að gera það, verður það erindi birt um leið og það berst.




Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024