Setja upp fleiri GPS-mæla við Þorbjörn
Fleiri GPS-mælar verða settir upp við fjallið Þorbjörn til þess að mæla frekar það landris sem átt hefur sér stað þar síðustu daga. Landrisið bendir til kvikusöfnunar undir fjallinu og var óvissustig almannavarna virkjað í gær.
„Það hafa komið fleiri gögn frá GPS-mælum sem eru í nágrenni við Þorbjörn. Við höfum líka fengið frekari greiningu á gervitunglagögnum. Þau staðfesta það að það er þensla vestan í Þorbirni. Gögnin sýna áframhaldandi hratt landris, svo við erum áfram að horfa á 3-4 mm ris á dag,“ segir Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar Veðurstofunnar, á vef Ríkisútvarpsins.