Sérsveitarmenn og fjölmennt lögreglulið í húsleit
Mikill viðbúnaður var hjá lögreglu í Reykjanesbæ um miðnætti í gærkvöldi. Fjöldi sérsveitarmanna og annarra lögreglumanna á sex lögreglubílum tóku þátt í lögregluaðgerðinni. Þá voru einnig notaðir hundar. Sjónarvottar segja að þegar aðgerðin stóð sem hæst hafi verið lögreglumenn dreifðir um stórt svæði í einu hverfa bæjarins.
Sérsveitarmenn ríkislögreglustjóra tóku þátt í aðgerðinni og voru vel brynjaðir og með öryggishjálma. Sá segir sjónarvottur í samtali við Víkurfréttir að lögreglan hafi verið með a.m.k. tvo hunda og að maður hafi verið leiddur á brott í handjárnum.
Hjá lögreglunni á Suðurnesjum fengust þær upplýsingar að aðgerðin í gærkvöldi hafi snúist um húsleit en frekari upplýsingar af aðgerðinni var ekki að hafa.
Meðfylgjandi farsímamynd var tekin á vettvangi í gærkvöldi.