Sérsveitarmenn með alvæpni umkringja byggingu í Reykjanesbæ
Fjöldi sérsveitarmanna með alvæpni frá Ríkislögreglustjóra hafa umkringt byggingu í Reykjanesbæ. Vegfarendur um Reykjanesbraut hafa í morgun orðið varir við fjölda lögreglubíla í forgangsakstri á Reykjanesbraut. Bílarnir hafa allir verið á leið til Reykjanesbæjar.
Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum sem ljósmyndari Víkurfrétta, Hilmar Bragi, tók rétt í þessu eru sérsveitarmennirnir vopnaðir bæði vélbyssum og skammbyssum.
Fjöldi lögreglubíla er nú á því svæði þar sem sérsveitin hefur umkringt byggingu, en í næsta nágrenni er bæði leikskóli og grunnskóli.
Hjá lögreglunni á Suðurnesjum fást þær upplýsingar að sérsveitarmenn séu við æfingar á Ásbrú og sé lögreglan á Suðurnesjum þátttakandi í þeirri æfingu.